148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Í morgun mátti lesa tíðindi af því að bátasmiðjan Rafnar í Kópavogi hefði ákveðið að loka starfsemi sinni hér á landi, segja upp öllum starfsmönnum og flytja framleiðsluna úr landi. Ástæðan er óviðunandi gengi krónunnar og óviðunandi starfsskilyrði hér heima fyrir.

Nýverið heyrðum við fréttir af uppsögnum tuga starfsmanna hjá Odda vegna innlendrar framleiðslu sem á í harðvítugri samkeppni við innflutning og stenst henni ekki lengur snúning vegna stöðu krónunnar.

Dæmin eru ótal mörg um þá erfiðleika sem innlent atvinnulíf glímir við núna vegna stöðu krónunnar. Það á ekki aðeins við um sjávarútveg. Umræðan um vandamál ferðaþjónustunnar hefur líka farið ört hækkandi og við sjáum að þar er að hægja verulega á sem og raunar hjá flestum útflutningsgreinum þessa lands.

Í gær var kynnt skýrsla nefndar um framtíð íslenskrar peningastefnu sem kemur með tillögu að fjórðu eða fimmtu tilraun til sjálfstæðrar peningastefnu með krónu. Allar hinar hafa misfarist. Ég held að það sé mjög brýnt að við í þessum sal tökum skýrsluna til vandlegrar umfjöllunar.

Árið 2012 skilaði Seðlabankinn rúmlega 600 blaðsíðna skýrslu um valkosti Íslands í peningamálum sem þingið ræddi þá lítið sem ekkert og tók enga afstöðu til. Eins má ekki fara um þessa skýrslu. Hún er þeim helsta annmarka háð að í henni mátti ekki ræða hinn eiginlega og raunverulega valkost um upptöku annarrar myntar heldur mátti einungis skoða valkosti okkar á grundvelli íslensku krónunnar. En skýrslan er vandað plagg og ágætisyfirferð yfir kosti og galla krónunnar og þá valkosti sem við stöndum frammi fyrir.

Ég held hins vegar að við eigum ekki að afgreiða þessa skýrslu líkt og skýrslu Seðlabankans með þögninni (Forseti hringir.) einni. Þingið þarf að taka afstöðu til hennar og hafa hugrekki að þessu sinni til að ræða alla valkosti okkar í peningamálum, líka aðra mynt.