148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:24]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Í upphafi máls míns vil ég lýsa sérstakri ánægju með þá áherslu sem ráðherra hefur lagt á þennan mikilvæga málaflokk og endurskoðun þess lagaumhverfis sem þar er fyrir hendi og þá vinnu sem þegar hefur verið sett í gang. Ég tel hana mjög mikilvæga og lofsverða af hálfu ráðherra.

Það er gríðarlega mikilvægt að ná betur utan um þennan málaflokk og það sýnir sig alveg augljóslega í þeim átökum sem hafa verið milli barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu á undanförnum misserum og því trúnaðarrofi sem þar hefur orðið á milli. Það er mjög alvarleg staða uppi og mjög mikilvægt að úr því öllu sé greitt, bæði með endurskoðun laganna og með því að skapa eftirliti með barnaverndarmálum skýrari ramma og að mínu viti greina á milli ráðgjafarhlutverks Barnaverndarstofu, sem er gríðarlega mikilvægt og mikil sérþekking er þar inni, og síðan aftur eftirlits með barnaverndarstarfi almennt, þar með talið bæði starfi barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu.

Þarna hygg ég að sé þegar lagður grunnur að ákveðnum aðgerðum og þætti áhugavert að heyra frá ráðherra hvar sú vinna er stödd, þ.e. varðandi flutning á eftirlitinu sem ítrekað hefur verið bent á að mikilvægt væri að flytja frá Barnaverndarstofu til sjálfstæðs aðila og átti að flytjast til sérstakrar eftirlitsstofnunar á vegum ráðuneytisins sem væntanlega er tekin til starfa.

Ég verð að lýsa ákveðnum vonbrigðum engu að síður með að í þeim málum sem komu upp í vetur og vísað var til ráðuneytisins hafi ekki verið unnið betur úr, m.a. með því að birta barnaverndarnefndunum sem áttu í hlut niðurstöðu úr úttekt ráðuneytisins, en ég treysti því að sú vinna sem nú er í gangi á vegum (Forseti hringir.) ráðherra og forsætisráðherra um úttekt á þeirri rannsókn allri nái vonandi að bera klæði á þau vopn sem þar voru brýnd.