148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni erindið. Tíminn líður nokkuð undarlega þegar þinglok nálgast. Allt í einu fannst mér ég hrokkinn fram á sunnudag, alla vega hef ég sjaldan heyrt jafn mikið rætt um Mósebók frá því að ég álpaðist í messu á þeim ágæta drottinsdegi og svo sem ágætt að hugsa um skuldir og jöfnuð og önnur réttlætismál í sögulegu samhengi og leita hugmynda sem víðast.

Þessi ræða þingmannsins vekur hjá mér þá spurningu hvaða aðra lagasetningu hann vill bera upp við helgar bækur, af því að mér hefur frekar þótt tíðarandinn blása í þá átt að við reynum að skilja í sundur löggjöf mannanna og þá löggjöf sem menn sækja sér í trúarrit. Það er nú ekki talað af allt of mikilli virðingu um leiðtoga sem vilja setja sharia-lög til dæmis yfir löndin sín. Þó að ég sé ekki að bera þingmanninum það á brýn þá langar mig að heyra aðeins frá honum hvort við megum eiga von á því að Mósebók og systur hennar verði hér notaðar sem rök í fleiri lagasetningartilgangi.