148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég er á nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og fagna málinu eindregið. Það er fagnaðarefni að við séum að greiða götu viðskipta við fátækustu ríki heims með þeim hætti sem hér er gert en þess verður þó auðvitað að geta að þetta hefur tekið okkur æðilangan tíma. Hér er um að ræða í raun þá fullgildingu á yfirlýsingum sem við gáfum fyrst árið 2000, það hefur tekið okkur nærri tvo áratugi að koma þessu í lög og hefði kannski verið betra ef við hefðum klára það fyrr.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á, að við ættum kannski að nálgast þetta viðfangsefni meira sem þróunaraðstoð en hefðbundna fríverslunarsamninga. Það eiga ekki við alveg sömu sjónarmið hér þegar við viljum gjarnan semja um gagnkvæman aðgang eða eitthvað þess háttar í hefðbundnum fríverslunarsamningum. Við erum fyrst og fremst að reyna að greiða fyrir viðskiptum fátækustu ríkja heims við ríka þjóð eins og okkar og auðvitað er það skuldbinding hinna vestrænu ríkja að reyna með því að efla efnahag fátækustu þjóða heims eins og þær eru skilgreindar hverju sinni.

Ekki get ég vitnað af jafn mikilli snilld í Mósebók eins og hv. þingmaður, en kom mér þó í hug eitt erindi úr Hávamálum sem á ágætlega við um þetta:

Bú er betra,

þótt lítið sé,

halur er heima hver.

Þótt tvær geitur eigi

og taugreftan sal,

það er þó betra en bæn.

Það er kannski það sem við erum að tala um, að ýta undir sjálfbærni þessara ríkja, ýta undir að þau geti staðið undir eigin efnahag. Það er vissulega rétt sem hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á að þar er oft helsti þröskuldurinn innviðirnir heima fyrir, en það breytir því ekki að það er útgjaldalítið fyrir okkur sem auðuga þjóð að afnema tollahindranir fyrir þau ríki og við þurfum ekki endilega að láta sömu lögmál um það gilda eins og aðra fríverslunarsamninga. Þess vegna þykir mér leitt að horfa upp á það að við séum áfram með talsverðar tollahindranir á landbúnaðarvörum.

Ég tel að við eigum hæglega að geta gengið lengra án þess að það brjóti gegn grundvallarafstöðu okkar hvað varðar viðskipti með landbúnaðarafurðir almennt. Það er ágætt að hafa í huga að tollar okkar á landbúnaðarafurðir eru almennt nokkuð háir, þeir eru háir í alþjóðlegu samhengi. Við erum með hvað ríkustu verndina gagnvart innflutningi einmitt á þeim sömu vörum og oftar en ekki eru þetta þær vörur sem þessi ríki framleiða helst eða hafa möguleika á að framleiða.

Í ljósi þess að um algjörlega óverulega viðskiptahagsmuni er að ræða fyrir okkur en aftur á móti geta þeir verið umtalsverðir fyrir viðkomandi ríki þá tek ég heils hugar undir með þeirri áeggjan nefndarinnar að stjórnvöld taki til skoðunar með hvaða hætti mætti mögulega liðka enn frekar fyrir viðskiptum við ríkin með því að afnema tollahindranir að fullu.