148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[21:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég held að það hafi einmitt komið ágætlega í ljós núna að ég misskildi þetta aðeins. Það er réttilega talað um samtök rétthafa í því máli sem við erum að ræða, í þessari þingsályktunartillögu. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, þó að ég hafi orðað það þannig að ég borgaði glaður fyrir áskriftina, að auðvitað eru þetta ekki miklir peningar og mættu hugsanlega vera meiri. En það er betra að hægt sé að borga fyrir þetta en að ræna þessu einhvers staðar.

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt fyrir okkur á Íslandi, ekki síst, að standa vörð um þá sem eru að skapa eitthvað fyrir okkur hin sem skortir þá náðargáfu að geta búið til tónlist eða skrifað bækur. Það er mjög mikilvægt að við höldum utan um það og beitum skynsemi og öllum góðum ráðum til að passa að ekki sé verið að misnota efni sem aðrir hafa lifibrauð af að búa til. Í ljósi þeirrar umræðu sem um þetta mál hefur orðið held ég að við ættum að skoða það einhvern tímann hvort utanumhald um það er nógu gott hjá okkur.