148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[21:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Hér erum við að ræða annan hluta af þessu svokallaða persónuverndarmáli sem við höfum rætt. Ég var því miður fjarverandi, upptekinn annars staðar, þegar málið var afgreitt frá utanríkismálanefnd. Ég held að huga þurfi mjög vel að málinu og reyndar betur en mér sýnist við kannski gera í dag. Ég held að þau varnaðarorð sem hafa komið varðandi stjórnarskrána þurfi að íhuga miklu betur en verið er að gera í dag. Ég held því að leggja eigi áherslu á að vanda mun betur yfirferðina á lagafrumvarpinu sem er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd, ef ég man rétt.

Fyrir nokkrum dögum, 2. júní, skrifar Arnaldur Hjartarson dómari grein í Morgunblaðið þar sem hann fer yfir þessi mál, undir yfirskriftinni: Stjórnarskráin, EES-samningurinn og reglur um persónuvernd. Fer Arnaldur mjög vel yfir það í sinni stuttu grein. Það fékk mig í rauninni til þess að velta fyrir mér hvort við höfum flýtt okkur aðeins of mikið í utanríkismálanefnd að klára þingsályktunina. Ég vona að hv. þingmenn misskilji mig ekki, að ég sé eitthvað sérstaklega að gagnrýna þá þingmenn sem stóðu að úttektinni úr utanríkismálanefnd. Ég held hins vegar að það hefði þurft að eiga sér stað meiri umfjöllun og mögulega að koma fram í nefndarálitinu einmitt meiri umfjöllun um stjórnarskrána og þau varnaðarorð sem eru uppi.

Í þingsályktunartillögunni kemur fram í skýringum á bls. 10 hluti af því sem greinarhöfundur fjallar um. Það sem vekur athygli mína og hefði gjarnan verið gott að taka meiri umræðu um í utanríkismálanefnd og mögulega fara dýpra ofan í með ráðuneytisfólki, það kom vissulega á einn fund sem ég sat, er að það stendur hreinlega að það séu tvær leiðir sem hafi verið færar varðandi þessa innleiðingu eða hvernig við tökum á þessu öllu saman. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa upp úr þessum kafla á bls. 10:

„Niðurstaða samningaviðræðnanna“ — þ.e. milli EFTA-ríkjanna og ESB um hvernig við ættum að innleiða þetta — „varð sú að aðlaga reglugerðina þannig að Evrópska persónuverndarráðið færi með valdheimildir gagnvart persónuverndarstofnunum EFTA-ríkjanna. Sá valkostur var í samningaviðræðunum nefndur ,,útfærslan um fulla aðkomu Evrópska persónuverndarráðsins“.“

Svo kemur, með leyfi forseta:

„Ekki var gerð tillaga um aðlögun reglugerðarinnar með aðkomu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Sú aðlögun hafði áður orðið fyrir valinu árið 2016 við aðlögun og upptöku gerða um evrópskar fjármálaeftirlitsstofnanir í EES-samninginn.“

Nú man ég ekki alveg hvernig umræðan var á þessum eina fundi sem ég sat þar sem við töluðum við fulltrúa ráðuneytisins og aðra um þetta, en það hefði verið mjög áhugavert að vita hvers vegna ekki var lögð meiri áhersla á að fara þá hefðbundnu leið sem við höfum farið varðandi þessar innleiðingar. Þar erum við í það minnsta að gæta að stjórnarskránni.

Í grein Arnalds er fjallað m.a. um þetta. Þar er sem sagt fjallað um að sú leið sem virðist hafa verið farin er til þess fallin í rauninni að afsala hluta af dómsvaldi eða úrskurðarvaldi til erlendra stofnana, þ.e. þessarar stofnunar Evrópusambandsins. Hvort sem það er gert að litlum hluta eða stórum þá færir hann ágæt rök fyrir því að það hafi verið gert.

Það sem ég hef áhyggjur af er að fram kemur líka í frumvarpinu, í skýringum með því í 8. lið, það sem kalla má samræmi við stjórnarskrá, að rennt er stoðum undir þær áhyggjur sem greinarhöfundur hefur uppi, þ.e. þrátt fyrir að menn telji að þessi evrópska stofnun hafi ekki beint ákvörðunarvald yfir persónum, einstaklingum, þá geti það verið óbeint, þ.e. að úrskurðir gagnvart Persónuvernd, íslensku persónuverndarstofnuninni, hafi bein áhrif á einstaklingana.

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé full þörf á að fara dýpra og betur ofan í einmitt þennan hluta. Er það alveg klárt og kvitt að við séum „eingöngu“ — ég segi eingöngu innan gæsalappa því að mér finnst það svolítið mál — að afsala okkur ríkisvaldinu, opinbera valdinu, til þessarar sameiginlegu stofnunar Evrópusambandsins? Erum við í raun að afsala rétti einstaklingsins líka? Ef það er, þá má lesa það, í það minnsta les ég það út úr þessu, það getur svo sem vel verið að það sé misskilningur, út úr skrifum greinarhöfundar, Arnalds Hjartarsonar, og þá horfir dæmið svolítið mikið öðruvísi við. Greinarhöfundur nefnir það reyndar að þetta kynni jafnvel að vera í andstöðu við þær ráðleggingar sem annar kunnur lögspekingur hafði uppi um þær leiðir sem væru færar varðandi innleiðinguna, en kem að því síðar.

Þetta er held ég, því miður, bara dæmi. Ég hef áhyggjur af því að við séum að flýta okkur of mikið í þessu máli. Ég hugsa að málið sjálft sé hið besta mál þegar við horfum á stóru myndina, það sé til að bæta í rauninni ástand persónuverndar eða hvernig við hugsum og förum með persónuvernd. En við verðum að sjálfsögðu að gæta þess að við tökum ekki skref þar sem við erum að afsala okkur og ganga á fullveldið meira en orðið er. Þess vegna held ég og legg áherslu á það í máli mínu að menn noti þá daga sem eru til stefnu í það minnsta til að fara „grundigt“ ofan í þennan hluta lagafrumvarpsins. Helst hefði ég viljað sjá að því yrði frestað til haustsins og miklu meiri og betri vinna sett í undirbúning þess. Við getum mögulega innleitt, mögulega segi ég, innleitt tilskipunina, en útfærslan sé geymd.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég vilji eitthvað tefja málið. Ég hef raunverulegar áhyggjur af þessu eftir að hafa hugsað þetta aðeins betur. Ég held að við ættum að stíga varlega til jarðar varðandi þetta mál.

Mig langar, með leyfi forseta, að grípa aðeins niður í greinina sem Arnaldur Hjartarson skrifaði í Morgunblaðið til að þær áhyggjur sem greinarhöfundur hefur komi hér fram. Með leyfi forseta, segir hann á einum stað í grein sinni:

„Ákvarðanir stofnunar ESB virðist einungis mega bera undir Evrópudómstólinn, en íslenska ríkið á ekki aðild að þeim dómstól. Þá mun ætlunin með reglugerð ESB jafnframt vera sú að binda hendur íslenskra dómstóla þegar kemur að mati á lögmæti þeirra ákvarðana Persónuverndar sem tengjast ákvörðunum stofnunar ESB, samanber 143. mgr. formálsorða reglugerðarinnar. Ef þetta er rétt þá felst í þessu fyrirætlun um framsal dómsvalds.“

Það er akkúrat þetta sem ég held að við verðum að taka til skoðunar í allsherjar- og menntamálanefnd, hvort þetta sé raunveruleikinn og þá hvort við getum einhvern veginn lagað, breytt eða komið í veg fyrir þetta.

Síðan segir Arnaldur, með leyfi forseta:

„Allt vekur þetta spurningar sem tengjast stjórnarskránni. Hvað framsal framkvæmdarvalds varðar þá er komist að þeirri niðurstöðu í frumvarpinu að framsal valds til stofnunar ESB sé lítils háttar, það sé aðeins á sviði framkvæmdarvalds í þröngt afmörkuðum tilvikum og bindi aðeins stjórnvöld en ekki einstaklinga eða fyrirtæki. Þrátt fyrir þetta er þó berum orðum viðurkennt í frumvarpinu“ — sem ég vísaði til í 8. lið í skýringum með frumvarpinu — „að sú ákvörðun sem Persónuvernd tekur í framhaldi af ákvörðunum stofnunar ESB og byggist á niðurstöðu stofnunarinnar kunni vissulega að hafa áhrif á einstaklinga eða lögaðila. Þannig virðist við fyrstu sýn að fyrirhugað framsal framkvæmdarvalds geti snert einstaklinga og lögaðila á Íslandi.“

Ef það er þannig þá erum við ekki eingöngu að binda þetta við opinbera stofnun eða opinbera aðila. Þá erum við að hafa áhrif á einstaklingana og lögaðila á Íslandi.

Síðan segir greinarhöfundur:

„Ekki er að finna umfjöllun í frumvarpinu um ástæðu þess að íslensk stjórnvöld féllust á það í sameiginlegu EES-nefndinni að vikið yrði frá tveggja stoða kerfinu þannig að stofnun ESB öðlaðist vald til að veita íslenskri ríkisstofnun bindandi fyrirmæli.“

Það kemur hins vegar að sumu leyti fram á bls. 10 í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni, að það var einfaldlega ekki gerð tillaga um að farin yrði tveggja stoða leiðin. Nú segi ég enn og aftur, ég hafði ekki tíma til að fara í gegnum minnispunktana mína, hvort skýring kom fram á því á þeim eina fundi sem ég sat um þetta.

Síðan segir greinarhöfundur, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er reyndar gefið í skyn að sú leið sem farin var að þessu leyti“ — þ.e. að víkja frá tveggja stoða kerfinu — „hafi að einhverju leyti verið í andstöðu við ráðgjöf Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors. Nánar tiltekið kemur fram í frumvarpinu að Stefán Már hafi bent á að lausn geti falist í því að Eftirlitsstofnun EFTA verði falið að taka ákvarðanir gagnvart EFTA-ríkjunum í stað stofnunar ESB.“

Þetta er annað atriði sem er ágætt að velta fyrir sér og fara yfir í nefndinni.

Undir lok greinarinnar fjallar greinarhöfundur aftur um framsal dómsvalds og fer yfir skilning frumvarpshöfunda og hvernig þetta tengist allt 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Síðan í lok greinarinnar segir Arnaldur, með leyfi forseta:

„Þær reglur sem felast í reglugerð ESB um persónuvernd eru til þess fallnar að hafa víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Alþingi gefst nú tækifæri til að ræða hið nýja frumvarp. Vonandi gefst nægur tími til að kanna hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur þess á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.“

Ég held að við verðum að taka þessi varnaðarorð mjög alvarlega. Við verðum að gefa okkur tíma til að gæta að þessu, hvort fyllilega hafi verið gætt að ákvæðum stjórnarskrárinnar varðandi þetta mál.

Virðulegur forseti. Ég held og veit að það er enginn inni í þessum sal eða á þingi sem ber ekki virðingu fyrir íslensku stjórnarskránni og telji að hægt sé smám saman að færa vald hennar yfir til einhverra annarra, hvar sem við stöndum í pólitískum eða öðrum skoðunum gagnvart Evrópusambandi eða EES-samningi eða öðru slíku. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að við uppfyllum þær reglur og þær skyldur sem við höfum tekið á okkur á þingi og líka að við virðum íslensku stjórnarskrána.

Virðulegi forseti. Ég vildi koma þessum punktum eða áhyggjum á framfæri, þannig að það liggi fyrir. Ég held líka að mikilvægt sé að við sameinumst um að vanda mjög til verka varðandi lagafrumvarpið, við tökum ekki neina sénsa, ef má nota það orð hér í ræðustól, að við förum núna „grundigt“ yfir þetta. Það skiptir miklu máli. Það skiptir meira máli en hraða þessu í gegnum þingið upp á von og óvon.