148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

stuðningur við borgarlínu.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Sú aðkoma felst að sjálfsögðu í því að sammælast við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um forgangsröðun verkefna. Af okkar hálfu hefur þótt skorta á heildarsýn á öll verkefnin, allt frá Sundabraut til Reykjanesbrautar, Suðurlandsveg. Það verður allt að vera með í myndinni þegar menn fjármagna nauðsynlegar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þarf sömuleiðis að leggja áherslu á bættar almenningssamgöngur. Það eru margvísleg rök sem hníga til þess, en af hálfu borgarinnar hefur einhvern veginn samtalið allt snúist um borgarlínu og ekkert annað og lítið gerst í öðrum málum.

Ég verð sömuleiðis að nefna að þegar sveitarfélög koma til ríkisins með hugmyndir sem eru langt umfram nauðsynlegar framkvæmdir að mati Vegagerðarinnar til að leysa úr tilgreindum verkefnum kveða lög á um að sveitarfélagið verði að borga mismuninn. Þarna hefur strandað á ýmsum verkefnum, t.d. hefur verið mikill ágreiningur milli Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar vegna áherslna borgarinnar á legu Sundabrautar um þetta efni. Það er ágreiningur um það hver eigi að taka milljarðakostnaðinn sem hlýst af því að Reykjavíkurborg hefur ekki viljað leggja Sundabrautina þar sem Vegagerðin lagði til.