148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

almenna persónuverndarreglugerðin.

[10:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við höfum nú til umfjöllunar frumvarp til laga um innleiðingu á reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd. Það er alveg ljóst að þetta er gríðarlega umfangsmikið mál sem felur í sér mjög viðamiklar breytingar fyrir íslenskt samfélag og að sama skapi er ljóst að við höfum takmarkað svigrúm til þess að aðlaga það að okkar umhverfi þar sem okkur er skylt að innleiða reglugerðina sem slíka.

Það kemur hins vegar berlega fram í þeim umsögnum sem við höfum fengið og þeirri umfjöllun sem þetta mál hefur fengið á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að það kom fram, að engu að síður er hér um fjölmörg álitaefni að ræða. Bent hefur verið á það t.d. af hálfu atvinnulífsins að mjög víða sé gripið til meira íþyngjandi aðgerða, þyngri viðurlaga, en reglugerðin sjálf krefst. Á þeim skamma tíma sem þingið hefur til þess að afgreiða málið er mjög erfitt að greina á milli þess hverjar raunverulegar efniskröfur reglugerðarinnar eru og í hvaða tilvikum ráðuneytið sjálft er að fara lengra en kannski þörf krefur. Það er auðvitað ljóst í öllu samhengi að þingið hefur, miðað við umfang frumvarpsins, óvenju skamman tíma til að gaumgæfa það og vanda til verks.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, því að í sjálfu sér er ekki um pólitískt mál að ræða, það er þverpólitísk samstaða að ég held í þinginu um mikilvægi þess að innleiða reglugerðina og mikilvægi þess að Ísland sé þátttakandi í þessu strax frá upphafi, hvort mögulegt sé að horfa frekar til þeirrar aðferðar sem nágrannaríki okkar t.d. á Norðurlöndunum hafa stuðst við að mér sýnist að mestu, að lögbinda reglugerðina sjálfa en fresta málinu að öðru leyti, mögulega til hausts eða lengur. Þá er þinginu gefinn rýmri tími til þess að vinna það (Forseti hringir.) með þeirri vandvirkni sem ætlast má til af því.