148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlag hans til umræðunnar og sömuleiðis fyrir framlag allra hv. þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni og fylgst með henni.

Ég ætla ekki að gera miklar athugasemdir á þessum stutta tíma við ræðu ráðherra en vil þó segja tvennt. Það kannski hrekkur ekki ýkja langt að bera fyrir sig það val sem menn að nafninu til eiga á milli lánaforma þegar bankarnir hafa það í hendi sér að verðleggja óverðtryggðu lánin með þeim hætti að margur flýr vegna þeirrar háu verðlagningar á náðir verðtryggingarinnar. Á skákmáli heitir þetta þvingað val. Það má ekki verða til þess að draga úr þrótti og áhuga manna á því að færa okkur inn á okkar svæði í heiminum í fjármálalegu tilliti þó að að nafninu til eigi menn þetta val. Bankarnir hafa af því mikinn hag vegna jákvæðs verðtryggingarjöfnuðar að sem mest af lánum þeirra séu verðtryggð.

Ég vil líka leyfa mér að segja vegna orða ráðherra um að umræðan um verðtrygginguna sé í einhverjum skilningi of mikil að ég get ekki tekið undir það. Við þurfum að ræða hana miklu meira. Umræðan hérna hefur leitt í ljós að menn eru náttúrlega fastir í sínum skotgröfum. Ég leyfi mér að furða mig á því hversu langt hv. þingmaður Vinstri grænna gengur þegar hún réttlætir (Forseti hringir.) verðtrygginguna með efnahagsaðstæðum sem voru hér fyrir 40 árum. Hv. þingmaður blandar saman vöxtum og verðtryggingu og sakar þá um glámskyggni, (Forseti hringir.) herra forseti, sem ekki (Forseti hringir.) eru í sömu þokunni og mistrinu.

Að öðru leyti þá vil ég ljúka máli mínu með því að þakka fyrir umræðuna.