148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst minnst var á frumkvæði að sameiginlegum ályktunum fjárlaganefndar tek ég hjartanlega undir það. Mig langar til að minnast á annað frumkvæði sem var það að kalla eftir grunndæminu og útskýringum á því, sem hefði kannski verið viðeigandi að nefna að ég átti frumkvæði að, til jafns við það.

En grunndæmið er einmitt mjög áhugavert. Hv. formaður fjárlaganefndar segir að ekki sé hægt að gera breytingartillögur við fjármálaáætlunina af því að þá þyrfti að byggja á tölum sem ekki liggja fyrir. Það finnst mér rosalega áhugavert. Í svarinu um grunndæmið, þar sem líka var beðið um sundurliðunina á útgjaldahækkuninni eða lækkuninni til hvers málefnasviðs, kom fram að upplýsingarnar um það kostnaðarmat þættu of villandi fyrir þingið.

Ég velti fyrir mér hvernig ráðuneytið gat þá notað upplýsingarnar til að búa til útgjaldarammann til að byrja með. Við vorum ekki með upplýsingarnar, við fengum þær ekki, til þess að byggja breytingartillögur okkar á. Ráðuneytið gat greinilega notað upplýsingarnar til að breyta útgjaldarammanum, annars hefðu þau væntanlega ekki gert það, annars hefðu þau orðið að giska og ekki er það mjög upplífgandi tilhugsun. En samt vill ráðuneytið ekki láta okkur fá þær upplýsingar.

Ég velti því fyrir mér hvað valdi því að við fáum ekki upplýsingarnar. Kannski hv. formaður fjárlaganefndar viti það.