148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gagnrýni ekki endilega að ekki hafi verið gerðar breytingartillögur. Ég gagnrýni, eins og hv. formaður segir, að þær tölur sem þarf að byggja á til að gera breytingartillögur liggi ekki fyrir. Það er mjög alvarlegur hlutur, finnst mér, að Alþingi hafi ekki þær upplýsingar sem ráðuneytið notar greinilega til að gera breytingar á útgjaldarömmunum, en útskýrir ekki fyrir Alþingi hverjar þær forsendur eru.

Ég ætla að nefna umsögn fjármálaráðs. Þar segir að þungi umræðunnar ætti að snúast um stefnumótun stjórnvalda. Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hægt sé að segja sem svo að mikil umræða hafi verið um stefnumótun stjórnvalda í nefndinni. Það varð vissulega mikil umræða um hagspána og breytingar á sköttum o.s.frv. En er hægt að segja að mikil umræða hafi orðið um seinni hluta fjármálaáætlunar, sem snýst um stefnumótun stjórnvalda, í nefndinni og meðal gesta og annarra sem sendu inn umsagnir? Ég upplifði það alla vega þannig að verulegur skortur væri á því að ýmislegt væri útskýrt hvað varðar þann hluta fjármálaáætlunarinnar. Til dæmis er talað um að efla sérfræðiþekkingu nefndasviðs Alþingis, en það var ekkert rætt neitt sérstaklega um þá stefnu stjórnvalda. Við höfum ekki hugmynd um hver áætlunin er fyrir næstu fimm árin, hvorki hvað varðar útgjöld né efni, hvert innihald þeirrar aðgerðar er.