148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:12]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara í gegnum þetta. Þetta er svo sem sama túlkun þannig að það verður áhugavert. Ég held að við þurfum að taka töluvert meiri umræðu um þessi mál í betra tómi. En mig langar til þess að nýta seinna andsvar mitt til að ræða aðeins um þessa stefnumörkun og fjármálaáætlunina. Þetta er stefnuplagg, þetta er fyrst og fremst pólitískt stefnuplagg. Þetta er stóra myndin. Síðan eru stjórnvöld, eðli málsins samkvæmt, með ýmsar mikilvægar áætlanir í gangi líka. Ég nefni af handahófi, og það tengist þeim nefndum sem ég sit í t.d., samgönguáætlun, byggðaáætlun, við erum að tala um heilbrigðisáætlun væntanlega einhvern tíma. Þetta eru náttúrlega líka gríðarlega mikilvæg stefnumótandi plögg og í fullkomnum heimi, ef við ætluðum að láta þetta allt ganga upp, þyrfti þetta að vinnast saman.

Samkvæmt lögum um opinber fjármál er vinnulagið við gerð þessarar fjármálaáætlunar sem nú er til umræðu mjög niðurneglt, bæði hvað varðar tímasetningar og hvernig fara skuli með þetta allt saman. Slíkt er ekki með allar þær áætlanir sem um ræðir. Nú er hv. þingmaður mikill áhugamaður um þessa stefnumótun og skilvirkni í vinnu okkar hér og ég velti fyrir mér hvort hann sjái fyrir sér að hægt sé að móta verklagið þannig að við værum raunverulega að beina öllum þessum lækjum, ef hægt er að kalla þessar einstöku fagáætlanir það, í sama farveg og þessa áætlun til þess að vinna virkilega til gagns fyrir opinber fjármál og þar með heildarmyndina. Ég hefði áhuga á að heyra aðeins sýn hv. þingmanns á það hvernig hægt væri að breyta þessu verklagi.