148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rak einmitt augun í það þegar var verið að fara yfir fjármálaáætlunina. Mér datt í hug að stefna stjórnvalda á hverju málefnasviði jafnaðist í raun og veru á við heilbrigðisstefnu eða samgönguáætlun eða eitthvað því um líkt. En í tilviki fjármálaáætlunar er stefna hvers málefnasviðs, heils málefnasviðs, allra málefnasviðanna, afgreidd í greinargerð með einni þingsályktunartillögu. Samgönguáætlun er annars þingsályktunartillaga út af fyrir sig sem hægt er að ræða efnislega og breyta efnislega, en að sjálfsögðu ekki fjármálaáætlun sem er kannski stefna stjórnvalda sem þarf að fara í gegnum þingið o.s.frv. Þar er ekki hægt að breyta neinu. Þar er ekki hægt að ræða hvert málefnasvið og stefna hvers málefnasviðs fær ekki þinglega meðferð. Það finnst mér mjög áhugaverður galli á þessu fyrirkomulagi.

Ég tel að hvert málefnasvið ætti að fá sína þinglegu meðferð, hvað varðar stefnuna. Það þyrfti að vinnast smám saman því að það er dálítið mikið að fara í gegnum 34 málefnasvið í hvert sinn, í heildina. Í rauninni væri það erfiðast fyrst en svo værum við bara að glíma við smábreytingar og viðbætur eftir því sem á liði þannig að vinnan í kjölfarið yrði ekki eins flókin. Það er kannski hægt að byrja á þessu í fjármálaáætluninni en taka þessa litlu læki, eins og hv. þingmaður orðar það, og í rauninni er málefnasviðið orðið dálítið góð á, og vinna stefnuna þar miklu meira fyrir utan fjármálaáætlunina sem slíka. Mér finnst algjörlega ótækt að öll stefna ríkisstjórnarinnar og öll stefna (Forseti hringir.) á málefnasviðum sé bara afgreidd í einhverri greinargerð.