148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóða yfirferð yfir fjármálaáætlun. Þar lýsti hann einmitt ágætlega þeim vanda sem varað hefur verið við, að við byggjum þessa áætlun á allt of bjartsýnum hagspám, óraunsæjum hagspám myndu margir segja, þ.e. almennt er gert ráð fyrir hagþróun á næstu árum og gildistíma þessarar fjármálaáætlunar sem við höfum aldrei upplifað á Íslandi áður. Með raungengi í hæstu hæðum, með spám um enn frekari hækkun á raungengi einmitt á sama tíma. Ég veit að hv. þingmaður sat ásamt mér undir ítrekuðum varnaðarorðum fjölmargra hagsmunaaðila hvað þetta atriði varðaði.

Mér þætti áhugavert að heyra álit hv. þingmanns á því hvort hann sjái þess einhver merki einhvers staðar í meðhöndlun meiri hluta fjárlaganefndar að á þessi varnaðarorð hafi verið hlustað eða við þeim brugðist með einhverjum hætti, því að það vekur mann vissulega til umhugsunar.

Ég vil hrósa formanni fjárlaganefndar fyrir að hafa stýrt mjög vandaðri umfjöllun nefndarinnar um þessa mikilvægu áætlun sem er auðvitað stefnumarkandi plagg fyrir hverja ríkisstjórn, en maður saknar þess, þegar kemur að máli við nefndina fjöldi hagsmunaaðila, fjöldi sérfræðinga, hagfræðinga, sem allir vara við því sama, að óraunhæft sé að ætla þessum hagspám að ganga eftir, að ekki skuli sjást nein merki um viðbrögð við þeim aðvörunum. En ég hef alla vega ekki fundið þau og þætti áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður hafi fundið einhver merki um þau.