148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni 3. minni hluta fjárlaganefndar. Ég verð að byrja á að segja að átak er í gangi varðandi uppbyggingu á ferðamannastöðum. Það var kynnt í haust. Tekið er með öflugum hætti á því á næstu misserum í fjármálaáætluninni, það hefur alveg komið fram.

Varðandi sviðsmyndir fengum við í fyrsta skipti í fjárlaganefnd, undir fjárlögunum í desember, fyrstu sviðsmynd sem óskað var eftir síðasta vor af fyrri fjárlaganefnd fyrir ári síðan. Ég vona að það haldi bara áfram að þróast með þeim hætti að við fáum betri sýn og betri upplýsingar, sviðsmyndir og annað tengt því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga sem ég er að velta fyrir mér. Í álitinu er talað um prósent í sambandi við skattalækkun og talað er um að samspil þessara tveggja þátta hafi aldrei gefist vel í hagstjórn og verði að teljast óábyrgt á tímum uppgangs í efnahagslífinu. Uppsveiflan var í hæstu stöðu 2016. Við erum kannski að tala um annan hagvöxt næstu árin en við vorum að upplifa fyrir tveimur árum, það verði svona tempraðra. Er þá hv. þingmaður að tala gegn lækkun í þessu umhverfi sem við sjáum fyrir okkur á næstu árum, skattalækkun upp á 1% sem er í þessum hugmyndum að fara út í?

Síðan varðandi innviðafjárfestingarnar. Ég hélt, það var skoðun mín að minnsta kosti, að við værum með þetta tiltölulega jafnt yfir, þ.e. varðandi innviðafjárfestingar í ríkisfjármálaáætluninni. Talað er um í álitinu að ef farið er í innviðafjárfestingar á skömmum tíma hefði það áhrif á hitnun hagkerfisins. Ég gæti kannski fengið frekari skýringar frá hv. þingmanni hvert hann er að fara með því?