148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna athugasemda hv. þingmanns um skyldur ríkisstjórnarinnar til að beita ráðsemi við notkun fjárheimilda sem Alþingi setur, sem hann rakti í ræðu sinni, þá langar mig til þess að beina sjónum frá skyldum ríkisstjórnar sem eru ótvíræðar og bundnar í lög að því hvert hlutverk Alþingis er í að standa vörð um fjárheimildir samkvæmt fjárlögum og lögum um opinber fjármál þegar ríkisstjórnin síðan bregst þeim skyldum sem hún á að fylgja lögum samkvæmt.

Hérna var t.d. minnst á varasjóðinn og hvernig farið hefur verið með hann nýlega. Ég álít sem svo og hef fært rök fyrir því að sú úthlutun standist ekki það ákvæði í lögum um opinber fjármál að slík útgjöld úr þeim sjóði séu tímabundin og ófyrirsjáanleg. Þau rök hafa ekki verið hrakin heldur hefur því einfaldlega verið svarað af ráðherra að hann telji að hann hafi rökstutt mál sitt nægilega og þar með er því bara lokið.

Hvert er hlutverk Alþingis? Og hverjir eru möguleikar Alþingis til að segja: Nei, það er rangt hjá þér, hættu þessu?