148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við deilum skoðun um faglegt hlutverk hv. fjárlaganefndar og ábyrgð gagnvart eftirliti og framkvæmd á þessu ferli öllu saman. Hv. fjárlaganefnd gekk í raun lengra en lagagreinin kveður á um. Hún fékk á sinn fund hæstv. samgönguráðherra og fulltrúa Vegagerðar og fór yfir þau verkefni sem eru ófyrirséð, óhjákvæmileg og tímabundin samkvæmt þessu og sendi beiðni til Ríkisendurskoðunar, eins og hv. þingmaður kom mjög vel inn á. Ég stend ekki í neinni réttlætingu eða einhverju dómarasæti, heldur er mikilvægt fyrir nefndina að fá þetta ferli í gegn vegna þess að við þurfum líka að hafa augun á lögunum í þessu efni.

Ég vil nota þessar sekúndur í lokin og þakka hv. þingmanni framlag hans í vinnu nefndarinnar um þetta mikilvæga mál.