148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og forseta í þessu tilviki. Það sem mér finnst áhugavert við yfirferð hans er að maður er að heyra þessa sundurliðun í fyrsta sinn í síðari umr. um fjármálaáætlun en ekki í nefndarvinnunni sem slíkri; upphæðirnar, fjöldi stöðugilda o.s.frv. Það væri frábært ef maður fengi einmitt slíkar upplýsingar um öll málefnasviðin og öll þau markmið sem sett eru hér.

Vissulega er ágætt að heyra um þrjár nýjar stöður, tvær nýjar stöður o.s.frv. En sú gagnrýni sem ég hafði uppi í framsögu minni, í nefndaráliti, snerist um markmiðin með því að fjölga stöðugildum. Þýðir það færri yfirvinnutíma á nefndasviði? Er nefndarálitum eða yfirferð, yfirlestri, skilað hraðar? Eykst fjöldi mála sem fer í gegnum nefndasvið? Umboðsmaður Alþingis talar um fjölda frétta á vefsíðu; þar er bara getið um stöðuna: árið 2017, 17; árið 2019 eiga þær að vera 50 og 75 árið 2023. Þetta er bara einfaldur mælikvarði á hvaða markmiðum á að ná. Það að ráða inn þrjá nýja starfsmenn getur ekki verið markmið út af fyrir sig. Það skiptir máli hverju við ætlum að ná með því að ráða þrjá nýja starfsmenn. Að ráða þrjá nýja starfsmenn er lausnin á því markmiði sem við setjum okkur, t.d. að birta fleiri fréttir á vefnum eða að færri yfirvinnustundir sé unnar á nefndasviðinu eða eitthvað því um líkt.

Það væri vel þegið ef hægt væri að fara aðeins nánar út í nákvæmlega það.