148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein af aðgerðunum hér í áliti umboðsmanns Alþingis er einmitt OPCAT-eftirlitið. Það var áhugavert að heyra að það er kannski ekki alveg fullfjármagnað, en það er alla vega eitthvað hér inni; gerð, sérfræðiaðstoð, þýðingar o.s.frv.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þeim metnaði að hér sé sérfræðiteymi hagfræðinga, hagfræðiteymi eða annað; það er tvímælalaust þörf á því. Með því að gera stærðarsamanburð er ég ekki nauðsynlega að gera lítið úr því, ekki viljandi, það er bara ljóst hversu fámennt slíkt teymi væri ef miðað er við fjármálaráðuneytið og ráðuneytin, Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri sem hafa úr ansi miklu að moða, kannski mismunandi eftir samtökum. Þá er ég að hugsa um samanburðinn við þetta litla teymi eins og ég hef það núna — einhvers staðar verða menn samt að byrja — og getu þess til að standa í lappirnar á móti pólitíkinni og mun stærri og stöndugri teymum innan ráðuneytanna til dæmis. Þetta er mjög áhugavert verkefni og eitthvað sem ég held að við þurfum að styðja mjög vel við, ekki bara að koma teyminu á koppinn yfirleitt heldur einnig að það geti staðið í lappirnar á móti pólitísku andófi ef þannig má að orði komast. Ég vonast sannarlega til að þetta heppnist.