148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni og virðulegum forseta þær upplýsingar sem hér komu fram, mjög gagnlegar og var margt áhugavert í máli hans, sér í lagi það sem sneri að eflingu á starfsliði þingsins. Ég held t.d. að bara í því máli sem við ræðum hér skipti það mjög miklu máli. Ég veit af fyrri ræðum þingmannsins að hann deilir þeirri skoðun með mér að þingið hefði helst þurft að fá þetta plagg fyrr til umræðu en raun bar vitni og hafa meiri burði til að leggja sjálfstætt mat á grunnstoðir eins og hér er vísað til fyrirhugaðrar ráðningar á þjóðhagfræðingi, sem ég tel vera mjög gagnlegt til þess að geta lagt sjálfstætt mat á efnahagslegan grundvöll áætlunar sem þessarar. Er það fagnaðarefni. Ég held að það geti hjálpað okkur mjög, enda er eitt af því sem við höfum rætt hér í dag og gagnrýnt að þrátt fyrir mikla umfjöllun hefur þingið afskaplega litla möguleika til þess að eiga við áætlunina sem slíka.

Af því að við viljum hafa gleðina í fyrirrúmi vona ég að hv. þingmaður fyrirgefi mér ákveðinn stráksskap þegar ég spyr hann út í ummæli hans um fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar og hvernig hann meti stöðuna nú þar sem — með leyfi forseta, þ.e. þess sem hér situr:

„Seðlabankinn metur það svo að slökun ríkisfjármála núna á þremur árum 2015, 2016 og 2017 séu 7,5% af vergri framleiðslu.“

Það vitum við vel sem vorum á þingi þau ár að sú slökun var að uppistöðu til á tekjuhliðinni og aðhald opinberu fjármálanna minnkaði vegna þess að dregið var úr tekjuöflun og þeir fjármunir settir í umferð í hagkerfinu. Þannig verður það til að aðhald ríkisfjármálanna í hagkerfinu minnkar. Við hvaða aðstæður? Þegar hagkerfið er að sigla í topp hagsveiflunnar. Og hvenær hefur það gerst áður? Á árunum fyrir hrun. (Forseti hringir.)

Nú er ljóst að Seðlabankinn telur enn og aftur að verið sé að draga (Forseti hringir.) verulega úr aðhaldi ríkisfjármálanna hjá tímabili þessarar fjármálaáætlunar. Nú spyr ég: Deilir hv. þingmaður áhyggjum mínum af þeirri staðreynd?