148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Af því að mér láðist að gera það í ræðu minni vil ég líka þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir einstaklega góða vinnu í tengslum við fjármálaáætlunina. Þó svo að ég gagnrýni niðurstöðuna harðlega get ég sagt heils hugar að vinnan var til fyrirmyndar og gott dæmi um þann þverpólitíska anda sem gjarnan mætti ríkja oftar í þinginu.

Hvað varðar niðurstöðu peningastefnunefndarinnar varðandi myntráðið sérstaklega er ég reyndar í sömu sporum og hv. þingmaður að ég er kominn á bls. 37, ef ég man rétt, ég hef ekki lesið hana til hlítar. En það er alveg rétt að nefndin telur meiri þjóðhagslega áhættu fólgna í myntráði en endurbættu verðbólgumarkmiði frá því sem nú er. Ég er ekki endilega sammála niðurstöðu nefndarinnar hvað það varðar. Reyndar hefur fjöldi ríkja rekið myntráð með góðum árangri yfir löng tímabil, hvort sem er ein síns liðs eða stutt af einhvers konar myntbandalagi eða inngöngu í myntbandalag, sem hefur skilað þeim mjög góðum efnahagslegum árangri. Ég er hins vegar alveg sammála niðurstöðu nefndarinnar sem er efnislega sú að það sé alveg sama hvaða fyrirkomulag við veljum okkur, að við munum alltaf sprengja það utan af okkur ef við ekki fylgjum þeim leikreglum sem þar gilda.

Það er auðvitað alveg rétt varðandi fastgengisstefnu eins og myntráð í rauninni, að slík stefna krefst enn meiri aga, bæði af hálfu aðila vinnumarkaðar í kjarasamningagerð og ekki hvað síst af hálfu ríkisins í hagstjórninni. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því miðað hvernig við hegðuðum okkur í fortíðinni hvort (Forseti hringir.) hægt sé að sleppa okkur lausum í slíkri stefnu, eða myntbandalagi ef því er að skipta. Við munum aldrei ná neinum (Forseti hringir.) árangri í að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika (Forseti hringir.) öðruvísi en breyta vinnubrögðunum okkar.