148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að sú umgjörð sem sett hefur verið um opinber fjármál með lögunum þar að lútandi er mjög til bóta. Við förum ekki eftir þeirri umgjörð, en hún hefur alla vega sett okkur mælanleg viðmið. Og að hér sé sett fjármálastefna skiptir gríðarlega miklu máli. Hún gefur þá strax mjög skýra vísbendingu um hvert ríkisfjármálin stefna hverju sinni. Það að hér sé sett fimm ára ríkisfjármálaáætlun skiptir líka gríðarlega miklu máli upp á fyrirsjáanleika, að stofnanir sjái hvað er fram undan, að það sé ekki bara bundið í fjárlagaumræðu hvers árs. Tillögurnar sem voru sameiginlegar tillögur fjárlaganefndar væru allar til umtalsverðra bóta ef við myndum ná að færa verklag í áttina að þeim. Ég held að þær myndu skerpa mjög verklagið í kringum þetta allt saman.

Ég held að það sé líka algjört lykilatriði ef horft er til framtíðar að fjárlaganefndin sé þess umkomin að eiga við fjármálaáætlun hverju sinni líkt og nefndin á við fjárlög. Komið hefur ágætlega fram í umræðunum í dag að nefndina skortir grundvallarupplýsingar úr ráðuneytunum um hvernig kostnaðartölur eru fundnar og hvað liggi að baki þeim markmiðum sem sett eru. Auðvitað ætti það að vera eitt af því sem fjárlaganefnd gerir að stilla annað hvort af. Ef markmiðin teljast ekki vera fjármögnuð ætti annaðhvort að bæta fjármagni við á viðkomandi málefnasviði eða einfaldlega að breyta markmiðunum og segja: Þau eru óraunhæf, þau munu ekki nást. En til þess skortir okkur nokkur gögn.

En ég held að þegar öllu er á botninn hvolft, þrátt fyrir allar þessar umbætur í lagaumhverfinu og þrátt fyrir öll metnaðarfull markmið þar að lútandi, séum við að falla í hefðbundinn freistnivanda stjórnmálanna að eyða þeim peningum sem til eru.