148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:05]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fjárlaganefnd var mikið rætt um þjóðhagsspár og annað. Það er bara ákveðin forsenda og hin stóra forsenda í fjármálaáætluninni er þjóðhagsspá Hagstofunnar. Hún er eiginlega hryggjarstykkið hvernig við vinnum með þetta og við sjáum líka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þjóðhagsspá hans, hún er meira að segja heldur jákvæðari í okkar garð næstu árin en spá Hagstofunnar. Hvað annað eigum við að nota í fjármálaáætlunargerðinni?

Hvað sér hv. þingmaður annað fyrir sér í þessu ferli en þessa hagspá? Hún hlýtur alltaf að vera grunnurinn að öllu sem við erum að vinna með. Við getum ekki nýtt okkur hagdeild Viðreisnar eða hagdeild Sjálfstæðisflokksins, eða hvernig sem við sjáum það. Maður rekur ekki puttann upp í loftið. Þetta hefur mér fundist mjög mikilvægt í þessari vinnu, eða sem sagt, maður hefur aldrei fengið það svar hvað menn sjá fyrir sér í slíkri vinnu.

Hv. þingmaður hefur oft talað um eitraðan kokteil varðandi skattalækkanir í hámarki hagsveiflunnar. Nú er önnur spurning. Ef almennt er litið á að við höfum verið í toppnum 2016 í hagsveiflunni og lending farin að mýkjast að einhverju leyti. Vonandi verður það þannig snertilending með tíð og tíma að við förum aðeins niður og síðan rísum við upp aftur, vonandi í rólegheitum. Er hv. þingmaður sammála að hápunkturinn í hagsveiflu hafi verið 2016? Af hverju er þetta þá svona viðkvæmt núna ef við erum að komast inn á rólegri tíma í því tilliti? Kannski er aðalatriðið hvaða hagstofuspár eða þjóðhagsspár við eigum að nýta okkur.