148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:10]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eiginlega nákvæmlega það sem er hið stóra verkefni hjá okkur varðandi fjármálaáætlunina og umræðuna í fjárlaganefnd á þinginu og annars staðar. Hver er veruleiki okkar í efnahagsmálum í dag? Hvar stöndum við? Sagan er einhvern veginn þannig að það er alltaf eitthvað nýtt sem kemur. Og þessi sjö til tíu ára sveifla sem hv. þingmaður talar um, það er alltaf eitthvað nýtt í henni. Svo verður fallið með einhverjum nýjum hætti.

Veruleikinn núna, við sjáum kannski að hryggjarstykkið á bak við efnahagsmál þjóðarinnar er með allt öðrum hætti en hefur verið áður varðandi eignastöðu erlendis og skuldir og þessa samsetningu — ég hef verið óþreytandi að tala um ferðaþjónustu, áhrif hennar, flugrekstur og annað, á efnahagslífið, hvernig þetta hefur þróast. Það hefur verið gríðarlegur vöxtur og gríðarlegt gjaldeyrisinnstreymi tengt þessum atvinnugreinum síðustu fimm, sex ár sérstaklega. Mér hefur þótt skorta umræðu um þennan veruleika.

Maður ræðir þessi mál við hagfræðinga okkar sem koma fyrir fjárlaganefnd eða maður hittir á förnum vegi og spyr: Hvað hefur gerst einmitt með tilkomu þessarar nýju atvinnugreinar, með þeim gríðarlega styrk sem ferðaþjónusta og flugreksturinn er? Ég held að mesta óvissan liggi kannski í því hvað þetta þýði til lengri tíma.

Nú höfum við nýjar spár eða erum að fá nýjar tölur og íslenskir flugrekstraraðilar stefna fyrst og fremst á að fjölga farþegum yfir Atlantshafið milli Bandaríkjanna og Evrópu, þar er gríðarleg fjölgun núna. Hvað segir hv. þingmaður um þann nýja veruleika — hann er hagfræðimenntaður — um þann þátt og breyttan veruleika? Hvernig eigum við að reyna að átta okkur á þeirri stöðu sem er komin upp í dag og hvort hún hafi ekki breytt í grundvallaratriðum efnahagsmálum okkar?