148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég held að algengasta staðhæfing í öllum efnahagsuppsveiflum sé: Þetta er öðruvísi í þetta skiptið. Algengasta niðurstaðan í niðursveiflunni er: Nei, það var það ekki.

Það er alveg rétt og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim gríðarlega ávinningi sem við höfum haft af ferðaþjónustunni í uppsveiflunni og stórkostlegt að sjá að við séum komin með nýja stoð undir hagkerfið, mjög sterka stoð. Ég hef fulla trú á að hún verði til frambúðar, þó að hún muni vafalítið ganga í gegnum sveiflur eins og allar aðrar atvinnugreinar, en við sjáum að um hana gilda alveg sömu efnahagslegu lögmál og aðrar atvinnugreinar landsins. Við sjáum að hin sterka raungengisstaða er líka farin að meiða mjög ferðaþjónustuna líkt og aðrar útflutningsgreinar. Það er að draga úr vexti og dvöl er að styttast, ferðamenn eyða minna og þar fram eftir götunum. Við þurfum því alltaf að gæta að okkur um sömu hluti. Það gilda sömu efnahagslegu málin um þetta allt saman á endanum.

Það sama á líka við um flugfélögin okkar í samkeppninni yfir hafið. Ef launakostnaður þeirra í íslenskum krónum verður of hár þá verða þau ekki samkeppnisfær. Áform þeirra eru enn þá um að auka verulega við sig í þeim flutningum. Ég vona svo sannarlega að þau áform gangi eftir og þeim farnist vel. En þá þurfum við líka að tryggja þeim stöðugt rekstrarumhverfi líkt og öðrum útflutningsgreinum. Það má alveg benda á í þessu samhengi að auðvitað hefur verð á t.d. flugvélaeldsneyti hækkað mjög skarpt núna þessi misserin og með tilheyrandi kostnaðaraukningu fyrir þau flugfélög eins og öll önnur flugfélög í heiminum.

Þetta er bara alltaf það sama. Við þurfum að gæta að stöðugleikanum. Fórnarkostnaðurinn okkar á endanum í þessum mikla óstöðugleika undangenginna 100 ára eru sprotarnir. Sprotarnir ná aldrei að vaxa og dafna. Fyrir vikið verður atvinnulífið miklu einhæfara en ella. Það þarf ekki að vera svoleiðis. Við getum skapað miklu meiri stöðugleika, bæði varðandi (Forseti hringir.) gengi, ekki síður hvað varðar fjármagnskostnað eða vexti.