148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í áliti meiri hlutans, þar sem umsagnir allra fagnefnda fylgja sem fylgiskjöl, er farið yfir rekstrargrunn allra málefnasviða á bls. 11. Þar er til dæmis sagt að háskólastig sé að hækka úr 41 milljarði í 46 eða um tæp 14%. Nú kom hv. þingmaður inn á það, og það er komið inn á það í áliti meiri og minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að þetta nær ekki þeim markmiðum að komast í meðaltal OECD og hvað þá Norðurlandanna. Mig langaði til að bæta aðeins við þennan punkt: Hagvöxtur á sama tíma samkvæmt fjármálaáætlun — á eins vafasömum forsendum og athygli hefur verið vakin á, þ.e. að það standist — er líka tæp 14%. Það þýðir í raun að breytingin frá fjárlögum 2017 upp í áætlun 2023 — réttara sagt tók ég bara hagvöxtinn á árum fjármálaáætlunar og þyrfti í raun að bæta við hagvexti ársins 2018 líka. Þá er þetta raunlækkun miðað við hagvaxtaraukningu, miðað við þessar tölur.

Ekki er nóg með að ekki sé náð að auka, miðað við verga landsframleiðslu, hlutdeild háskólastigsins í þessu, hvað þá framhaldsskólastigsins; ef við tökum þetta tímabil og bætum 2018 við er verið að lækka hana með tilliti til vergrar landsframleiðslu, færa hana enn fjær meðaltali OECD. Ég vildi kannski fá smáumræðu um þetta.