148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta fyrir ræðu hans. Hann kom þar inn á mál sem mér eru hugleikin, m.a. löggæslumálin, og fór ágætlega yfir hversu mjög hefur dregið saman í þeim efnum á undanförnum árum og áratugum. Hann nefndi einnig reglulegar brýningar æðstu yfirvalda í þá veru að nú skyldi bætt í. Það virðist því miður alltaf skila niðurstöðum sem eru í þá átt að það fækkar og liðin virðast veikjast. Alla vega eru fjárveitingar af verulega skornum skammti.

Ég er áhugasamur um að heyra það sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason kom inn á í lokin og sagðist ekki komast yfir í þessari ræðu vegna tímaleysis, en það er ástand sýslumannsembættanna. Þeim var fækkað fyrir ekki löngu síðan. Markmiðið með því var að styrkja þau, auka sérþekkingu innan hvers embættis og ef ég man rétt átti að gera hverja einingu starfhæfari sem heild og auka sérhæfingu innan hennar.

Þar sem hv. þingmaður er fyrrverandi sýslumaður langar mig, hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, til að spyrja hvernig honum sýnist þróun hafa verið í því umhverfi og hvort fjárveitingar og staða þessara sameinuðu embætta hafi þróast með svipuðum hætti og við höfum séð lögregluembættin þróast til tiltölulega langs tíma, því miður.