148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og það glögga og góða yfirlit og innsýn sem hann veitti inn í þennan þýðingarmikla málaflokk.

Þessu tengt eru sýslumannsembættin. Þetta er atriði sem ég get greint frá og liggur fyrir að hefur verið fjallað um á vettvangi hv. fjárlaganefndar Alþingis. Það stendur þannig á að í áliti meiri hlutans, sem hefði alveg getað ratað inn í sameiginlegu ábendingarnar og tillögurnar, þar sem fjallað er um málefnasvið 10, sem eru réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins, segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að ekki hefur tekist að skapa viðunandi rekstrargrundvöll hjá sýslumannsembættum og brýnt er að bæta úr því sem allra fyrst. Ef ekki tekst sem skyldi að færa stjórnsýslu- og þjónustuverkefni til embættanna ber ráðuneytinu að leita annarra leiða til að ná jafnvægi í rekstrinum.“

Ég vil af því tilefni leyfa mér að spyrja hv. þingmann, og vísa þá til reynslu hans og þekkingar á þessu þýðingarmikla málefnasviði: Hvað býr hér að baki? Hvaða skipulagsbreytingar liggja að baki og hvaða stjórnsýslu- og þjónustuverkefni gæti þingmaðurinn séð fyrir sér að gætu ratað inn í þessi embætti með það að markmiði, eins og segir þarna, að skapa viðunandi rekstrargrundvöll hjá umræddum sýslumannsembættum?