148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Talnaleikur er ágætur, sumir ná utan um hann en aðrir ekki. Ég ætla að byrja á því að segja að ég er alveg sammála því sem við höfum rætt í nefndinni varðandi stefnumótun og markmið og hvort áætlun uppfyllir markmið og stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma. Það hefur m.a. komið fram hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni að skynsamlegt væri að fækka markmiðum og reyna að hafa áætlunina skýrari. Ég held að þegar maður tekur fleiri rúnta á þetta sé það skynsamlegt og líka að reyna að ná fram betri framsetningu þannig að hlutirnir sé auðskiljanlegir.

Eins og hv. formaður nefndarinnar sagði í dag eru rammasett útgjöld án vaxtagjalda, óregluleg og utan ramma. Það er yfirlit aftur til 2010 og alveg fram til 2023 þannig að auðvelt er að bera saman og horfa á þetta og reikna sig út. Sú nálgun sem hv. þingmaður setur fram breytir því samt ekki að þetta eru gríðarlega mikil útgjöld, þótt hann reikni sig niður á 54 milljarða, sem ég er ekki sannfærð um að sé rétt en ætla ekki að efast um hvernig hann kemst að þeirri tölu. Ég hef ekki séð þá tölu og náði ekki alveg utan um hana þegar hann var að þylja þetta upp í ræðustól. Það breytir því þó ekki að við setjum mikla fjármuni í alla helstu innviði. Ef hv. þingmaður horfir á það sem verið er að setja árlega í heilbrigðisgjöld, samgöngur og menntamál hlýtur hann að komast að annarri niðurstöðu en það séu 54 milljarðar á ári. Það held ég að hljóti að vera, virðulegi forseti.

Ég vona að við getum alla vega verið sammála um að við erum að tala um miklar breytingar og að við séum að leggja (Forseti hringir.) til mikla innviðainnspýtingu. Píratar hafa ekki lagt neitt annað til svo ég viti, þannig (Forseti hringir.) að áhugavert væri að vita hvar hv. þingmaður vildi bera niður.