148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Mig langar til þess að spyrja hana út í eitt atriði sem verið hefur nokkuð til umræðu á fyrri stigum, það er ákvörðun sem tekin var af ríkisstjórn um að nýta rétt um helming svokallaðs varasjóðs í sérstök samgöngumannvirki. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem fjárlaganefndarkonu hvort hún telji það samræmast lögum um opinber fjármál og því markmiði sem varasjóðnum er ætlað að sinna. Ég held að allir sem horfa á vegamál með nokkurri sanngirni og þekkingu, eins og við þingmenn hér gerum örugglega, viti að ástand vegamála var alveg örugglega ekki ófyrirséð eftir misserin á undan og þá umræðu sem verið hafði.

Það sem mig fýsir að vita er hver afstaða hv. þingmanns sem fulltrúa meiri hlutans í fjárlaganefnd og Vinstri grænna er gagnvart þessari sérstöku ráðstöfun, sem hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum þingsal að vakti allnokkrar spurningar, svo vægt sé til orða tekið. Hún verður eflaust grundvöllur frekari vangaveltna á næstu vikum, mánuðum og misserum.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þessa sérstöku aðgerð eða ráðstöfun varðar.