148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég vil byrja á því að segja að ég hefði viljað sjá þetta gert öðruvísi. Við sögðum það öll, nefndarmenn fjárlaganefndar. Hvert og eitt einasta okkar sagði það við ráðherra þegar hann kom á fund okkar að við hefðum viljað sjá þetta gert með öðrum hætti, þ.e. að beiðnin og upplýsingarnar hefðu komið með öðrum hætti til okkar í stað þess að við fengjum upplýsingar í fjölmiðlum og værum svo beðin um að gera þetta. Mér finnast það ekki góð vinnubrögð. Engu okkar þótti það og við gagnrýndum það alveg ófeimin við ráðherrann. Hitt er svo aftur annað mál að ég tel ekki að lög um opinber fjármál hafi verið brotin hvað þetta varðar. Það er alveg rétt að við vitum öll að samgöngukerfið er, má segja að niðurlotum komið mjög víða. Við þekkjum alveg það sem gengið hefur á í ferðamannamálum og að allur þungaflutningur fór af sjó og upp á vegi o.s.frv.

Ég vil hins vegar ekki rengja vegamálastjóra sem kemur inn á fund nefndarinnar og segir við okkur að ástandið sé mun verra og sýnu verra en hann óraði fyrir eftir þennan vetur, sem er, eins og við þekkjum búinn að vera sérlega erfiður vegakerfinu. Frost og hiti og guð má vita hvað hefur orðið til þess að margir vegir hafa komið enn verr undan vetri en væntingar stóðu til þótt vitað væri að ástandið væri ekki gott. Hann taldi a.m.k. að þarna væru mörg bráðaverkefni sem bregðast yrði við. Ég gat í því ljósi gengist við því, en ég ítreka að ég var ekki sátt við að þessi ákvörðun væri tekin við ríkisstjórnarborðið og kæmi svo með þessum hætti inn til okkar. Ég hefði (Forseti hringir.) viljað fá ráðherra sem hreinlega ræddi það við nefndina og óskaði eftir því áður en hann færi með það eitthvert annað.