148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti þessa umræðu við þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, þegar hann lagði fram sína áætlun. Við vorum svo sem ekki komin að neinni niðurstöðu um hvað nákvæmlega væri hægt að gera. En það er alveg ljóst að hækkandi kolefnisskattur þýðir að allar vörur verða dýrari þar sem ég á heima og margur annar, þannig að við þurfum einhvers konar auknar jöfnunargreiðslur með einhverjum hætti. Ég er ekki búin að útfæra það, en ég held að sé alveg ljóst að það þarf að gera. Ég hef rætt þetta innan míns flokks og félagar mínir hafa nefnt að koma þurfi til móts við þá sem búa í hinum dreifðu byggðum ef kolefnisskatturinn verður hækkaður enn meira, sem stendur til að gera. Ég held að það þurfi að gera með einhvers konar jöfnunaraðgerðum. Útfærslu á þeim hef ég ekki. Ég held líka að vert sé að fá hugmyndir víða að hvað það varðar, því að eflaust hefur fólk fleiri hugmyndir en bara ég og hv. þingmaður. En (Forseti hringir.) það er mikilvægt að niðurgreiðsla með einhverjum hætti komi til svo vörur, þjónusta og annað slíkt verði ekki dýrari en ella á landsbyggðinni.