148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Sú sem hér stendur er fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd. Þess vegna mun ég einkum ræða þá hlið áætlunarinnar.

Í fjármálaáætlun á að birta stefnu fyrir málefnasvið opinberra fjármála til næstu fimm ára og áætla jafnframt tekjur ríkissjóðs og útgjöld hvers málasviðs fyrir sig. Útgjaldarammar eru ákveðnir og ráðuneyti skipta síðan áætluðum fjármunum niður á málaflokka í fjárlagafrumvarpi og á stofnanir og einstök viðfangsefni innan þeirra og birta í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu.

Fjármálaáætlun er endurskoðuð árlega en með samþykkt hennar fyrir árin 2019–2023 eru rammar fyrir fjárlagafrumvarp 2019 ákveðnir. Þeim römmum verður því ekki breytt nema verulegar breytingar verði á afkomu ríkissjóðs að vori 2018 og þá að hausti sama árs. Auk þess verður fjármálaáætlun að uppfylla skilyrði fjármálastefnunnar sem gerir kröfur um afkomu á árinu 2019 sem er 1,2% af vergri landsframleiðslu. Þess vegna er fjármálaáætlun ákaflega mikilvæg, til þess að rýna stefnu ríkisstjórnarinnar en líka til að ákveða rammana fyrir málasviðin sem vinna á með strax á næsta ári. Síðan er fjármálaáætlun tekin upp árlega en það er næsta ár, árið 2019, sem er einkum undir þegar kemur að tölunum sem eru í henni og eru lagðar hér fram til samþykktar.

Fjármálaráð gerir alvarlegar athugasemdir við áætlunina og bendir m.a. á að sá sveigjanleiki sem boðaður var í fyrri fjármálaáætlun, frá síðustu ríkisstjórn, sé nú að mestu leyti horfinn. Við í Samfylkingunni leggjum ríka áherslu á að fjárlaganefnd taki tillit til athugasemda og ábendinga fjárlagaráðs og geri breytingar á fjármálaáætlun í samræmi við þær. Við lögðum á það áherslu en raunin er sú að meiri hluti fjárlaganefndar gerir engar breytingar.

Það gerum við hins vegar í Samfylkingunni. Þær hafa verið lagðar fram.

Það þarf að gera bæði breytingar á tekjuhlið og útgjaldahlið áætlunarinnar. Auka þarf við tekjur ríkissjóðs, einkum til að skila betri afkomu í góðæri til að undirbúa niðursveifluna og einnig til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum sem ekki er gert ráð fyrir í fjármálaáætluninni. Þarna skiptir hvort tveggja máli vegna þess að þegar við förum niður úr sveiflunni er mikilvægt að við göngum á afganginn en ekki á þjónustu við þá sem þurfa sérstaklega á velferðarþjónustu okkar að halda. Við eigum ekki að láta sjúka, aldraða, skólafólk, vera sveiflujöfnunina heldur á það að vera afgangur í ríkissjóð, sem við eigum að hafa góðan þegar góðæri er eins og nú.

Þótt erfitt sé að átta sig á orðum hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar sem tala ekki einum rómi um fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar má ljóst vera af kaflanum Áherslur í skattamálum, svo sem á bls. 15 í fjármálaáætluninni, að gengið er út frá að tekjuskattur lækki í neðra þrepi um 1 prósentustig. Lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi um 1 prósentustigs rýrir tekjur ríkissjóðs um 14 milljarða kr.

Í þeim sama kafla stendur, með leyfi forseta:

„Samhliða er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga og bótakerfa, m.a. með það að markmiði að unnt verði að draga úr skattbyrði og koma á fót heildstæðu og einfaldara kerfi, ekki síst í þágu tekjulægri hópa. Þar er horft til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og vegna húsnæðiskostnaðar, með markvissari fjárhagslegum stuðningi við efnaminni heimili.“

Þessi stefna er síðan útfærð með áætluðum fjármunum í fjármálaáætluninni og mikilvægt er að lesa tölur og orð saman svo ljóst sé hvaða athafnir ríkisstjórnin hyggst láta fylgja orðunum. Þannig er að texti og tölur passa ekki saman hvað þetta varðar. Það eru fögur orð sums staðar í textanum, áherslur sem vel er hægt að fallast á, en síðan koma tölurnar og þar með eru hlutirnir slegnir út af borðinu.

Fram kemur í greinargerð með fjármálaáætlun að framtíðarkerfið sem ríkisstjórnin vill koma á verði einfaldara, skilvirkara og gegnsærra en nú. Vísað er í hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2015 og samstarfsvettvang um aukna hagsæld frá 2016. Báðar hugmyndirnar ganga út á bótakerfi sem sérstaka fátæktaraðstoð og að húsnæðisstuðningur í formi vaxtabóta heyri sögunni til. Einstaklingar fái mismunandi háan persónuafslátt eftir tekjum og vinnuframlagi en skattprósentan verði aðeins ein. Í þeim hugmyndum er ekki gengið út frá tvöföldu hlutverki skattkerfisins, þ.e. tekjuöflunarhlutverki þess annars vegar og tekjujöfnunarhlutverki þess hins vegar. Hugmyndirnar miðast við óbreyttar tekjur. Sú sem hér stendur mælir með því að litið verði frekar í smiðju hinna norrænu ríkjanna en til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar breyta á skattkerfi sem standa á undir velferð.

Samfylkingin vill að tekjuskattur sé þrepaskiptur og gegni því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Við viljum endurskoða bilið milli skattþrepa, fjölga skattþrepunum og tryggja sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið. Ójöfnuður, hvort sem litið er til tekna eða eigna, er að aukast hér á landi og nýta þarf skattkerfið til að jafna leikinn.

Eins og ég fór yfir áðan í andsvari við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur má lesa það úr svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherrans við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, að ríkasta 0,1% landsmanna hafi átt 201,3 milljarða kr. í hreinni eign í lok ársins 2016. (Gripið fram í.) Hópurinn jók hreinar eignir sínar um 14 milljarða kr. á því ári. Ríkasta tíund þjóðarinnar, þ.e. ríkustu 10%, tók til sín tæpan helming þeirrar hreinu eignar sem varð til á því ári. Áður, fyrir árið 2016, var ljóst að eignamismunurinn var mikill hér á landi. Þarna er verið að bæta í. Þetta er þróun sem er ekki góð og hefur átt sér stað víða í hinum vestræna heimi og víða um heim. Til dæmis hafa hagfræðingar OECD og fleiri fræðimenn bent á þetta og varað við að þegar slíkur ójöfnuður vex hefur það slæm áhrif á samfélögin og verður m.a. til þess að það dregur úr hagvexti. Það er mikill hagur í að reyna að finna út úr hvernig hægt sé að slá á þann ójöfnuð. Til þess nota mörg lönd, mörg ríki, stóreignaskatta.

Við jafnaðarmenn viljum auka vægi barnabóta sem auk húsnæðisbóta og persónuafsláttarins eru mikilvægustu jöfnunartækin sem stjórnvöld geta beitt. Við mótmælum því harðlega að þak sé sett á barnabætur til næstu fimm ára og boðað að þær verði styrkur til fátækra en ekki leið til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Fjölskyldum sem njóta barnabóta hefur fækkað um rúmlega 12 þús. frá árinu 2013 þegar hægri menn komust aftur til valda.

Á Norðurlöndum og reyndar víða í Evrópu hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings við barnafjölskyldur en hér á landi hefur dregið úr vægi barnabóta jafnt og þétt. Þeirri afleitu stefnu á að viðhalda. Upphæðin sem lagt er til að Alþingi samþykki að verja til barnabóta á ári til næstu fimm ára er nánast sú sama og Alþingi samþykkti fyrir fimm árum síðan. Helsta niðurstaða nýlegrar skýrslu frá norrænu ráðherranefndinni er að vaxandi ójöfnuð á Norðurlöndum megi skýra með því að bætur hafi ekki hækkað í takt við laun undanfarin ár.

Barnabætur hér á landi byrja að skerðast langt undir lágmarkslaunum samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Hvergi er að sjá í fjármálaáætluninni að gert sé ráð fyrir fjármagni til lengra fæðingarorlofs, sem þó er talað um í stjórnarsáttmálanum.

Samfylkingin leggur áherslu á að fæðingarorlof verði lengt í tólf mánuði en einnig að fjármagn til barnabóta verði hækkað og tekin verði markviss skref á næstu fimm árum þannig að barnafjölskyldur muni um greiðslurnar til að jafna stöðu þeirra við hina sem ekki eru með börn á framfæri.

Draga á úr húsnæðisstuðningi þannig að undir lok áætlunartímans eru áætlaðar umtalsvert minni fjármunir í stuðninginn en í upphafi tímans. Það er ekki nefnt í húsnæðismálum sem tekur á þeim stóra vanda sem snýr að efnahag en ekki síður að velferð fólksins sem á í erfiðleikum með að eignast eigið heimili eða nær vart endum saman vegna þess hve húsnæðiskostnaðurinn er hár. Það eru vonbrigði, svo ekki sé meira sagt, að meiri hluti fjárlaganefndar skuli ekki gera breytingartillögur sem taka á húsnæðisvandanum. Afleiðingar vandans eru ekki aðeins efnahagslegar heldur hafa mikil áhrif á velferð þeirra sem eiga í erfiðleikum með að eignast heimili, greiða húsaleigu eða annan húsnæðiskostnað.

Við Íslendingar erum rík af auðlindum og teljum það eina okkar mestu blessun. Við erum þó ekki góð í að innheimta sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar og eins og nýleg dæmi sanna eru sumir stjórnmálamenn viljugri en aðrir til að selja auðlindir eða leigja þær út eða heimildir til nýtingar þeirra ódýrt. Það á við um fiskveiðiauðlindina en einnig um orkuauðlindir og aðrar náttúruauðlindir. Þó að margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi vantar enn réttlætistilfinningu um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið.

Með útboði á aflaheimildum og leigusamningum til ákveðins tíma fengist fullt verð fyrir kvótann. Sanngjarn hlutur auðlindarentunnar frá orkufyrirtækjunum ætti að renna í ríkissjóð og gjaldtaka af ferðamönnum einnig. Eins ríkir af auðlindum og Íslendingar eru getur það ekki verið ásættanlegt að almenningur fái ekki að njóta réttláts hlutar af arðinum sem annars rennur til þeirra sem hafa réttinn til að fénýta auðlindirnar eða geta tekið sér þann rétt vegna stefnuleysis stjórnvalda.

Eins og fjármálaráð bendir réttilega á stuðlar fjölbreyttara atvinnulíf að stöðugleika. Í umsögn fjármálaráðs segir, með leyfi forseta:

„Fjölbreytt samsetning atvinnuvega getur mildað áhrif áfalla í einstökum greinum á efnahagslífið, sérstaklega í litlum opnum hagkerfum eins og okkar. Ekki er heppilegt að geyma öll eggin í sömu körfu.“

Ferðaþjónustan er á skömmum tíma orðin ein stærsta atvinnugrein landsins. Snöggur samdráttur í þeirri grein hefði mikil áhrif á efnahagslífið eins og snögg fjölgun ferðamanna hefur sannarlega haft á undanförnum árum. Raunverulega atvinnustefnu skortir í landinu. Það er mikilvægt að styðja við sprota í atvinnulífinu og hjálpa þeim að vaxa og skila til þjóðarbúsins en jafnframt er mikilvægt að hætta stuðningi þegar atvinnugrein þarf ekki lengur á stuðningi að halda eða hefur með stuðningi stjórnvalda rutt öðrum greinum út úr atvinnulífinu. Engin atvinnugrein nýtur eins mikilla skattstyrkja frá hinu opinbera og stærsta atvinnugrein landsins, ferðaþjónustan. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi 2018 eru skattstyrkir til ferðaþjónustunnar metnir á um 26,5 milljarða kr. Stjórnvöld þurfa að beita skattstyrkjum með markvissari hætti. Það er alveg nauðsynlegt. Ég skora á meiri hlutann að taka það til alvarlegrar skoðunar. Það er, eins og fjármálaráð bendir á, afar óskynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni og ýta undir að stærsta atvinnugreinin verði enn stærri og ryðji öðrum frá.

Í greinargerð með fjármálaáætlun er rætt um að herða þurfi eftirlit með skattskilum. Ég tek undir þau sjónarmið. Hins vegar þarf hærri fjárhæð til þannig að ásættanlegur ávinningur náist með eftirliti og skattrannsóknum, bæði með skattsvikum innan lands en einnig með þeim sem svíkja undan skatti með því að nota erlend skattaskjól. Sú viðbót sem lögð er til í fjármálaáætlun til skattrannsókna og eftirlits er tekin til baka á næstu tveimur árum. Því þarf að breyta eigi stefna ríkisstjórnarinnar að ná fram að ganga.

Lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur sem fleiri fá notið og húsnæðisstuðningur í takt við þarfir eru allt mál sem stuðla að jafnari stöðu karla og kvenna. Hins vegar vinnur skattafsláttur í formi samnýtingar skattþrepa gegn jafnrétti, ef svo má að orði komast. Greining fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umfangi á samnýtingu persónuafsláttar og skattþrepa fyrir tekjuárin 2010–2015 sýnir að úrræðið er algengast meðal tekjuhæstu hjóna eða sambýlisfólks, eða að 93% af endurgreiðslunni nýtist til hækkunar ráðstöfunartekna karla. Samnýtingin hvetur til minni atvinnuþátttöku tekjulægri maka í samsköttun, sem oftast eru konur.

Eftir engu er að bíða. Leggja ætti heimild til samnýtingarinnar niður hið allra fyrsta.

Áætlað umfang skattafsláttarins er um 2,7 milljarðar kr. árið 2018. Enginn vafi er á því að félagsleg undirboð ógna sjálfum grundvelli velferðarsamfélagsins sem einmitt byggir á afkomuöryggi allra og samstöðu um réttindi og kjör sem gilda fyrir alla. Heilbrigður vinnumarkaður er undirstaða góðra samfélaga og svikin verður að stöðva hér á landi. Brotastarfsemin beinist einkum að þeim sem eru veikastir fyrir, ungu fólki og erlendum starfsmönnum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Félagslegt undirboð kallar á skýr viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Slík svik á vinnumarkaði hafa bæði alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar og félagslegar. Viðbrögð stjórnvalda verða að vera í samræmi við alvarleika málsins og gera verður ráð fyrir fjármunum til að verja heilbrigði vinnumarkaðarins hér á landi.

Forseti. Til stendur að taka á dagskrá frumvarp sem tekur að einhverju leyti á því vandamáli, um svik og svindl á vinnumarkaði. Ég fagna því. Ég styð þær aðgerðir þó að ég vilji taka fram að gera þurfi betur. Ég treysti því að stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ríkisstjórn muni gera það því að það er okkar allra hagur. Það er hagur starfsmanna, hagur verkalýðsfólks en líka hagur fyrirtækjanna því að með félagslegu undirboði eru fyrirtæki að svindla sér fram fyrir í röðinni og framar í samkeppninni. Það er einnig algerlega óásættanlegt. Það er því allra hagur að taka með myndarbrag á þessu. Þó að ég sé ekki á móti því að tekin séu þau skref sem lögð eru til í þeim frumvörpum sem liggja fyrir þessu þingi þarf að gera enn betur.

Forseti. Af ræðu minni vona ég að enginn efist um að ég er mjög gagnrýnin á þessa fjármálaáætlun. Við í Samfylkingunni leggjum til ákveðnar breytingar. Þó að við séum ekki með stór ráðuneyti á bak við okkur til að útfæra þær nákvæmlega eru þær hugmyndir um hvernig megi laga þetta til þannig að það nýtist þeim hópum sem virðist eiga að skilja eftir í þessu góðæri og því góða efnahagsástandi sem við sannarlega búum við. Það er óréttlátt og við viljum reyna og leggjum til að sú staða verði löguð.