148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur prýðisræðu. Ég vil fyrst segja að ég tek undir það með hv. þingmanni að fjölbreytt atvinnulíf er mikilvægt og allt sem lýtur að félagslegum umbótum. Síðan er það alltaf spurning hvernig við nálgumst viðfangsefnið. Hv. þingmaður kom í ræðu inn á málefni ferðaþjónustunnar. Nú höfum við margoft fjallað um öran vöxt í ferðaþjónustu og auknar tekjur sem greinin hefur skilað. Hv. þingmaður talaði um að mikilvægt væri að við gættum jafnræðis milli atvinnugreina. Ég tek undir það. Hv. þingmaður vitnaði í skýrslu í fjárlögum sem lýtur að skattstyrkjum atvinnugreina. Ég hef aðeins staldrað við akkúrat það yfirlit því að áform voru uppi um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Meiri hlutinn fjallar aðeins um ferðaþjónustuna í nefndaráliti sínu en hún skilar verulegum beinum tekjum og ekki síst gjaldeyristekjum. Þó er það þannig að allar skýrslur segja okkur að brugðið geti til beggja vona með þann öra vöxt og í það minnsta sé að draga úr honum. Ég velti fyrir mér í ljósi aðstæðna og mikilla fjárfestinga í greininni hvort ekki hefði verið óráðlegt að ráðast í hækkun á virðisaukaskatti á þessa atvinnugrein.