148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég held að það sé svo löngu, löngu tímabært að taka yfirvegaða umræðu um atvinnustefnu í landinu, hvert við viljum stefna og undir hvað við viljum ýta. Fjármálaráð talar líka um það, sem er reyndar augljóst, að ekki sé gott að hafa öll eggin í sömu körfunni. Ferðaþjónustan er sveiflukennd og erfitt að treysta á að það verði endalaus vöxtur þar og eiginlega alls ekki hægt.

Þegar við sáum fram á að vöxtur væri að færast í ferðaþjónustuna áttum við að segja: Við fögnum því að ferðaþjónustan er að vaxa. Við skulum endilega fara í markaðsátak og reyna að fá ferðamenn til að fara út um allt land og dreifa álaginu en við skulum láta greinina vaxa við eins almenn skilyrði og mögulegt er. Það hefði verið afar skynsamlegt árið 2012 ef við hefðum borið gæfu til að samþykkja virðisaukaskattsbreytinguna þá. Ég viðurkenni alveg að núna rúmlega fimm árum síðar, það hefði verið einhver töf á gildistöku, er erfiðara að fara út í þá aðgerð. Þess vegna kalla ég árin frá 2013, bæði hvað varðar ferðaþjónustuna en líka innviðauppbyggingu, ár hinna glötuðu tækifæra, sérstaklega voru það þau þrjú ár sem ríkisstjórn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var við völd. Þá áttum við að fara af fullum krafti í innviðauppbyggingu en það var ekki gert.