148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:29]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það má segja að þingmaðurinn á undan mér hafi stolið glæpnum. Ég ætlaði að ræða nákvæmlega sömu hluti sem snúa að hinum svokölluðu skattaívilnunum, sem hafa verið töluvert í umræðunni varðandi fjárlög undanfarin ár. En þegar verið er að tala um almenn skilyrði í ferðaþjónustu hefur verið bent á að í Evrópu er gistiþátturinn með virðisauka upp á 7–12%. Það er almenna reglan. Það eru tvö lönd í Evrópu sem eru með hærri virðisauka, Rúmenía með 24% sirka og Danmörk með 24–25% og eru menn þar í miklum vandræðum og hafa ívilnandi hluti á móti með öðrum hætti til að gera ferðaþjónustu sína samkeppnishæfa eins og með ráðstefnuhald og slíka hluti. 7–12% í Evrópu er almennur virðisauki á gistingu. Það hefur frekar verið þannig undanfarin ár að virðisaukinn hefur verið færður niður í löndum eins og Þýskalandi til að jafna samkeppnishæfni landsins við önnur lönd í Evrópu.

Síðan langar mig að spyrja. Við erum búin að fá svar við spurningunni um hvort hv. þingmaður sé jafn sannfærð og hún var fyrir ári síðan um að hækka virðisaukann á gistiþætti ferðaþjónustunnar upp í 24%. Svar við því kom áðan. Það eru komnar einhverjar efasemdir um það. En hvenær er þá rétt að lækka skatta ef það er ekki við þau skilyrði sem eru núna, ef við gætum farið í það? Hv. þingmaður telur ekki rétt, eins og kom upp í umræðunni áðan, að lækka skatta í dag. Hvenær kemur þá réttur tímapunktur til að lækka þá?