148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sagði áðan að það væri erfiðara og að betra hefði verið að láta greinina vaxa við eðlileg rekstrarskilyrði, þau sömu og önnur þjónustufyrirtæki þurfa að glíma við. Skattstyrkirnir til ferðaþjónustunnar sem eru metnir í fjárlögum fyrir árið 2018 upp á 26,5 milljarða kr. eru til þess að gefa þeirri grein betri tækifæri en öðrum atvinnugreinum hér innan lands. Við þurfum líka að horfa í það þegar við erum með atvinnugrein sem með starfsemi sinni verður til þess að krónan styrkist, og það hefur áhrif á aðrar útflutningsgreinar, bara svo hv. þingmaður haldi ekki að ég vilji ekki lengur tala um hærri virðisaukaskatt. Svo er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar við berum okkur saman við önnur lönd hversu stór hluti vinnumarkaðarins ferðaþjónustan er á hverjum stað. Við verðum, og okkur hefur ekki tekist það, eða þeim sem hafa verið við stjórnvölinn, að koma með almennilega stefnu eða umgjörð um ferðaþjónustuna. Þó að menn hafni þessari leið hljótum við að verða að fara aðrar leiðir, því að þótt að ferðaþjónustan skapi okkur störf og vöxtur hennar hafi sannarlega komið sér vel meðan við vorum að rétta úr kútnum er mikill kostnaður við álagið. Ef ekki er komið til móts við það í samgöngum, hjá lögreglu, við heilsugæslu, (Forseti hringir.) mun það bitna á íbúunum og sambúð greinarinnar og íbúanna versna.