148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:36]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Gangi sú fjármálaáætlun sem við ræðum hér fyrir árin 2019–2023 eftir verða útgjöld ríkissjóðs án fjármagnskostnaðar um 132 milljörðum kr. hærri á lokaárinu en þau voru samkvæmt fjárlögum á liðnu ári. Það er 20% aukning á föstu verðlagi. Það er aukning sem nemur u.þ.b. 1,5 millj. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ef lýsa á þróun ríkisfjármála síðustu ár með einu orði þá er það útgjaldaþensla. Það er eiginlega sama á hvaða liði er horft, allt hefur hækkað og mun halda áfram að hækka á komandi árum. Í fjármálaáætluninni er því heitið að tekjuskattur einstaklinga lækki sem og tryggingagjald.

Ég er einn af þeim sem telja, ólíkt hv. þm. Oddnýju Harðardóttur sem var hér áðan, að við þurfum að stíga fastar og hraðar til jarðar þegar kemur að því að slaka aðeins á skattaklónni. En það er sérstaklega ánægjulegt að í fjármálaáætluninni er tilkynnt um að hefja skuli heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu. Þar verður m.a. skoðað hvort rétt sé að innleiða breytilegan persónuafslátt með svipuðum hætti og ég hef talað fyrir. Þá yrði persónuafslátturinn hækkaður verulega og færi stiglækkandi eftir því sem tekjur eru hærri. Hugsanlegt er að ónýttur persónuafsláttur yrði að einhverju leyti greiddur út. Þannig tekjuskattskerfi, með einni flatri skattprósentu, hvetur fólk til vinnu, en refsar því ekki fyrir að bæta hag sinn. Það eykur á sama tíma ráðstöfunartekjur tekjulágra meira en þeirra sem meira hafa.

Í fjármálaáætluninni er lagt til að framlög til sjúkrahúsþjónustu, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingar og lyf og lækningavara, hækki um rúmlega 56 milljarða frá 2017–2023. Það er 29% raunaukning. Gangi áætlunin eftir verða útgjöld til heilbrigðismála 249 milljarðar kr. árið 2023.

Svipaða sögu er að segja þegar kemur að málefnum aldraðra og öryrkja. Þar verða framlögin nær 35 milljörðum hærri. Alls nema framlög til aldraðra og öryrkja um 162 milljörðum árið 2023.

Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að framlög til lífeyrisgreiðslna hækkuðu á árunum 2013–2017 um 69% að raunvirði. Í heild verða útgjöld til velferðarmála liðlega 96 milljörðum kr. hærri árið 2023 en á síðasta ári. Það er raunhækkun upp á 26%. Ég hygg að ekki sé hægt að finna dæmi um jafn mikla raunaukningu útgjalda til velferðarmála í öðrum löndum yfir fimm, sex ára tímabil.

En krafist er hærri útgjalda. Þeir eru nokkrir í þessum sal sem telja að útgjaldaþenslan sé ekki nægilega mikil. Gefa þarf meira í og síðan að láta af þeim vonda sið að ríkið afsali sér tekjum. Tillögur um að lækka skatta eru sagðar vera merki um getuleysi ríkisstjórnar við að afla tekna. Aðrir þeir sem tala fyrir því að slakað verði á klónni sitja undir ásökunum um að gefa eftir milljarðana, að tekjuleiðirnar séu ekki nýttar svo einhverjar af möntrunum, sem stundum eru kyrjaðar, séu nefndar.

Það er einhvern veginn þannig, eins og ég hef sagt áður, að sá mælikvarði sem við notum á opinbera þjónustu er hve miklum peningum er varið í hana. Á grundvelli þessa mælikvarða er stöðugt krafist hærri útgjalda. Gæði þjónustunnar verða eiginlega aukaatriði.

Það er miður og ég hygg að það eigi auðvitað að innleiða ný vinnubrögð eins og margir hafa talað um varðandi fjármálaáætlun og gerð fjármálaáætlunar, en það er miður að útgjöld eða ákvörðun um útgjöld virðist fremur vera á forsendum kerfisins og þeirra þarfa sem það hefur en ekki stjórnast eða ráðast af þörfum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Það á ekki síst við um heilbrigðiskerfið.

Við erum of upptekin á stundum að taka hér ákvarðanir um að auka útgjöld, m.a. til heilbrigðismála til að leysa ákveðinn vanda, að við gleymum því að gera kröfur um hvað við fáum fyrir peninginn. Hvern er verið að þjónusta? Hverjir fá úrlausn sinna mála með því að auka fjármunina? Við erum of upptekin við að leysa vanda kerfisins sjálfs. Það er erfitt, það skal játað, að standa á bremsunni þegar kemur að útgjöldum ríkisins. Það er stundum eins og bremsurnar virki ekki.

Þess vegna er ég sannfærður um að við þurfum að hugsa rekstur ríkisins upp á nýtt. Við þurfum að straumlínulaga það allt saman. Við þurfum að gera auknar kröfur til þjónustu sem við kaupum sameiginlega. Við þurfum að auka skilvirkni og nýsköpun í opinberum rekstri. Það eiga að vera markmið sem á að setja og ætti að vera skylda að setja í fjármálaáætlun.

En víkjum aftur að tekjuhliðinni. Garmurinn hann Ketill, skattgreiðandinn sjálfur, virðist fremur vinafár. Þrepaskipt tekjuskattskerfi einstaklinga með persónuafslætti og tekjutengdum vaxta-, húsnæðis- og barnabótum, vinnur ólíkt því sem margir halda gegn launafólki, ekki síst þeim sem lægstu tekjurnar hafa. Jaðarskattar sem fylgja slíku kerfi auka fremur launamuninn en þeir jafni kjörin. Verst er þegar fólk festist síðan í gildru jaðarskatta. Því er refsað í hvert skipti sem hagur þess batnar.

Það er nefnilega þannig að það eru ráðstöfunartekjurnar, launin sem maður heldur eftir þegar maður er búinn að greiða sína skatta, leggja iðgjöldin inn í lífeyrissjóðinn, sem skipta fjölskyldurnar í landinu mestu frá degi til dags. Samspil launaþróunar og barna-, og vaxta- og húsnæðisbóta, hefur auðvitað þarna verulega mikil áhrif. Tekju- og eignatengingar þessara bótaflokka eru með þeim hætti að þeim sem síst skyldi er refsað, jaðarskattar éta upp ábatann og stundum gott betur. Þeir sem standa sterkast að vígi á vinnumarkaðnum eiga hins vegar möguleika á því að fá bættan skaðann sem háir jaðarskattar og/eða hækkun tekjuskatts valda.

Þrepaskipt tekjuskattskerfi eykur vanda launafólks og refsigleði skattkerfisins magnast. Það er með hliðsjón af þessum innbyggðu göllum tekjuskattskerfisins sem ég hef sannfærst um að við eigum að innleiða flatan tekjuskatt, eina almenna skattprósentu, en um leið hækka persónuafsláttinn verulega og láta persónuafsláttinn síðan lækka eftir því sem tekjur hækka.

Gallinn í tekjuskattskerfinu birtist einmitt í persónuafslættinum. Í hvert einasta skipti sem við tökum ákvörðun um það í þessum sal að hækka persónuafsláttinn þá gengur hann upp allan tekjustigann. Það er þess vegna sem hækkun um þúsund kall er svona dýr. Það er þess vegna sem hækkun á persónuafslætti með tekjuskattskerfi okkar skilar sér ekki til þeirra sem lakast standa. Það er þess vegna sem flöt skattprósenta með háum persónuafslætti sem lækkar með hækkandi tekjum, er skynsamlegasta leiðin. Þess vegna er það mikið fagnaðarefni að í fjármálaáætluninni er boðuð heildarendurskoðun á þessu tekjuskattskerfi og greint er frá því að þetta sé ein af þeim hugmyndum sem er til skoðunar.

Auðvitað verða róttækar breytingar á tekjuskattskerfi einstaklinga ekki gerðar í ágreiningi við aðila vinnumarkaðarins og allra síst launþegahreyfingum. Þess vegna skiptir máli að slík breyting, sem ég er orðinn sannfærður um að sé skynsamleg, sé gerð í góðri sátt og samráði við aðila vinnumarkaðarins og getur orðið mikilvægt innlegg í kjaraviðræður, ekki bara þær sem eiga sér stað á þessu ári, heldur líka til framtíðar. Þetta eru breytingar sem miða að því að gera tekjuskattskerfi einstaklinga réttlátara og einfaldara, gegnsærra.

Undir forystu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra voru stigin mörg mikilvæg skref til að einfalda skattkerfi á árunum 2013–2016. Í upphafi síðasta árs féll milliþrep í tekjuskatti einstaklinga niður sem jók ráðstöfunartekjur stórs hluta launafólks. Almenn vörugjöld voru felld niður, tollar af fatnaði og skóm heyra nú sögunni til. Kaupmáttur heimilanna jókst. Efsta þrep í virðisaukaskatti var lækkað úr 25,5% í 24. Neðra þrepið var hins vegar hækkað á móti og skattstofninn breikkaður. Tryggingagjald hefur lækkað úr 8,65% í 6,85%. Tryggingagjaldið er lítið annað en skattur á laun og störf. Ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit og þau fyrirheit eru m.a. gefin í fyrirliggjandi fjármálaáætlun um frekari lækkun gjaldsins. En það er enn töluvert miklu hærra en það var árið 2008 þegar gjaldið var 5,34%. Þannig að verkefnin eru til staðar, en okkur miðar í rétta átt.

Þegar við ákveðum að breyta skattkerfi, hvort heldur það er skattkerfi er viðkemur sköttum og álögum, fyrirtækjum eða einstaklingum getum við hins vegar ekki einblínt eingöngu á hvaða áhrif þær breytingar hafa á tekjur ríkissjóðs til hækkunar eða lækkunar. Við verðum að sannfærast og vera sannfærð um að breytingarnar leiði ekki til skertrar samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og að a.m.k. sé ekki verið að leggja þyngri byrðar á fyrirtæki hér heldur en í samkeppnislöndunum. Þetta var t.d. eina ástæða þess að ég talaði gegn og lagðist gegn því að virðisauki, virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, væri hækkaður upp í 24% á síðasta ári eins og til stóð vegna þess að menn gleymdu því og horfðu fram hjá þeirri einföldu staðreynd að íslensk ferðaþjónusta, gisting, er að keppa á alþjóðlegum markaði, keppa við lönd þar sem virðisaukaskatturinn er töluvert mikið lægri.

Það er engin tilviljun t.d. að Þjóðverjar tóku þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að lækka virðisaukann sérstaklega á ferðaþjónustu til að gera þýska ferðaþjónustu samkeppnishæfari við það sem gengur og gerist í Evrópu og sérstaklega í austurhluta Evrópu. Það voru samkeppnissjónarmið sem réðu því. Það er þess vegna sem Danir hafa innleitt flókið millifærslukerfi og endurgreiðslukerfi í ferðaþjónustu til að endurgreiða aðilum hluta af virðisaukanum sem lagður er á, en þar er eitt þrep við lýði.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin, af því að ég sé að tími minn styttist í annan endann, sem kemur á óvart, held ég að ég komist ekki hjá því, eðli málsins samkvæmt, að ræða aðeins um þær forsendur sem liggja að baki fjármálaáætluninni og þeirri þjóðhagsspá sem liggur að baki. Ástæðan er sú að við sem sitjum í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar bentum á í umsögn okkar að við umfjöllun nefndarinnar hafi komið fram áhyggjur hjá gestum okkar af grunni þjóðhagsspár. Þar var varað við of mikilli bjartsýni. Auðvitað er óvissa alltaf fyrir hendi þegar menn spá. Eftir því sem spáin tekur til lengri tíma er óvissan meiri.

Ég held að nauðsynlegt sé eins og við í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefnd bendum á að taka alvarlega ítrekuðum ábendingum fjármálaráðs um einsleitni spálíkana sem stuðst er við. Það er þess vegna mikilvægt (Forseti hringir.) að innleiða breytt verklag, smíða nýtt (Forseti hringir.) þjóðhagslíkan út frá þörfum (Forseti hringir.) opinberra fjármála svo við getum betur og með pínulítið meiri vissu spáð fyrir um framtíðina.