148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Þorsteini Víglundssyni. Það er stundum eins og eina markmið okkar sé að auka ríkisútgjöld. Við gleymum — ég held að það hafi verið það sem ég var að reyna að koma á framfæri í ræðu minni áðan — að nota réttu mælikvarðana, hvað við fáum fyrir peninginn. Ég held að horfa eigi til þess að setja réttu mælikvarðana inn í fjármálaáætlunina og gera ákveðnar kröfur um þá þjónustu sem veitt er. Ég vil að gerður sé skýr greinarmunur á því hver greiðir, þ.e. við úr sameiginlegum sjóði, og hver veiti. Það á að vera samkeppni um að veita þjónustuna vegna þess að tvennt gerist: Þjónustan verður betri og hún verður ódýrari fyrir okkur sameiginlega. Þess vegna er svo mikilvægt að byggja upp heilbrigt kerfi í heilbrigðisþjónustu, ef svo má að orði komast. Þar skiptir einkaframtakið gríðarlega miklu máli og á að leika lykilhlutverk samhliða hinu ríkisrekna kerfi.