148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni kærlega fyrir yfirgripsmikla, innihaldsríka og góða ræðu. Ég er sammála honum um mjög marga hluti. — Þar tapaði ég mínútu af ræðutímanum. Mér leist svo býsna vel á að þetta væru tvær mínútur, þess vegna byrjaði ég á að skjalla þingmanninn. Nú fer ég að tala hraðar.

Það sem mér fannst svolítið skína í gegn í ræðunni voru áhyggjur hans af því að kerfið væri farið að vinna út frá sjálfu sér hvað útþensluna varðar og að erfitt væri um viðspyrnu. Hvar sýnist hv. þm. Óla Birni Kárasyni, sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, helst hafa tekist að spyrna við fótum hvað útgjaldavöxt varðar í fjármálaáætluninni miðað við fjárlög undanfarinna ára? Er hann einhvers staðar í öllu fjármálakerfinu virkilega ánægður með hvernig til hefur tekist hvað það varðar?