148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir prýðisræðu; hann talaði af þekkingu. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar góða umsögn við tekjuhluta ríkisfjármálaáætlunar, þá sem við ræðum hér. Það nýttist hv. fjárlaganefnd mjög vel og viðbrögð við ábendingum og umsögn þessari rata hér í álit meiri hluta nefndarinnar.

Hv. þingmaður fór yfir tekjuskattskerfið og fyrirhugaðar áætlanir um að taka það til endurskoðunar og samspil við bótakerfi; hann fór yfir þessa eitruðu mynd þrepaskiptingar og neikvæðra hvata jaðarskatta og nefndi í því samhengi sannfæringu fyrir því að hafa hér eina flata prósentu.

Fyrir forvitnissakir spyr ég hv. þingmann, ég veit að hann hefur mikla þekkingu á málinu: Hvert gæti það hlutfall verið?