148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:21]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér ríkisfjármálaáætlun 2019–2023. Ég hef farið víða í dag og ætla rétt að hlaupa yfir nokkra punkta, kannski það sem áhersla hefur verið lögð á í vinnu fjárlaganefndar. Ég byrja á fjárfestingarstiginu. Síðastliðið ár höfum við lagt töluverða vinnu í að átta okkur betur á fjárfestingarstiginu hjá ríkinu, í fjármálaáætluninni, og þá greint í sundur rekstrarhlutann og síðan fjárfestinguna í áætluninni til að gera okkur betri mynd af fjárfestingarstiginu. Fjárfestingarstig ríkisins hefur mikið að segja í efnahagslífi þjóðarinnar og við höfum reynt að setja það í samhengi við einkageirann, eins og á íbúðamarkaði og atvinnumarkaði, og síðan aftur ohf.-in og líka fyrirtæki tengd ríkinu. Þar má kannski helst nefna framkvæmdir og fjárfestingar á vegum Isavia sem verða umtalsverðar á næstu árum eins og komið hefur fram í kynningum af hálfu Isavia. Þar er gert ráð fyrir framkvæmdum upp á 120–150 milljarða á næstu fáu árum. Það er um það bil helmingurinn af fjárfestingarstiginu hjá ríkinu í fjármálaáætluninni; þar er reiknað með að fjárfestingar af hálfu ríkisins séu tæpir 339 milljarðar. Það sýnir hversu hátt fjárfestingarstigið er hjá Isavia þessa stundina, það gæti verið um helmingurinn af því sem ríkið setur í fjárfestingar á sama tíma.

Það hefur verið farið vítt og breitt hér í dag en við sjáum umtalsverðar fjárfestingar. Síðan eru það náttúrlega líka rekstrargjöldin hjá ríkinu. Ef við förum aðeins í rekstrargjöldin er verið að tala um að á tímabili ríkisfjármálaáætlunar hækki þau um 19% eða um tæpa 118 milljarða. Þar af er aukningin, ef miðað er við árið 2017 fram til 2023, 117 milljarðar; til velferðarmála 85 milljarðar eða um 78% af heildarhækkun allra málefnasviða. Það sýnir áhersluna sem hefur verið á þessa málaflokka, að þetta hefur tekið langmest af þessum rekstrarútgjöldum. Ef við greinum aðeins niður í prósentur eru fjárfestingar á sviði samgöngu- og fjarskiptamála, sem athyglin hefur beinst að í vor, síðustu vikur og mánuði — í vegi, hafnir og flugvelli og fjarskipti — um 124 milljarðar á þessu tímabili eða 36,7% af heildarfjárfestingu. Það er því aðeins að lifna yfir því og töluverðar hækkanir, miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum, í þetta málefnasvið. Sjá má að töluvert fjármagn fer til almannatrygginga, í heildarendurskoðun bóta þar, eða um 17,7 milljarðar. Örorka og málefni fatlaðs fólks, 17 milljarðar. Síðan 13,1 milljarður til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Framlög til sjúkrahúsþjónustu hækka um 13 milljarða. Þetta eru helstu liðir sem hækka.

Það er til bóta að við höfum lagt meiri vinnu í töflur og annað til að reyna að greina heildarsamhengi hlutanna, setja þetta meira upp í töfluformi en áður hefur verið gert. Það er kannski breytingin sem við erum að sjá núna á milli þessara missera. Síðan höfum við lagt áherslu á, í vinnu fjárlaganefndar, að fá frekari sviðsmyndagreiningar af ýmsu sem tengist fjármálaáætlun í sambandi við hagspár og slíka hluti. Það er almennur áhugi á því meðal nefndarmanna í fjárlaganefnd að bæta enn frekar í á því sviði. Við sjáum það, miðað við ábendingar sem komu fram í fyrra, að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur verið að vinna töluvert eftir þeim ábendingum. Vonandi þróast þetta með tíð og tíma en við eigum sjálfsagt enn töluvert langt í land með að ná þessu nákvæmlega eins og við myndum vilja sjá þetta til lengri framtíðar.

Ég er mjög ánægður með að á málefnasviði um almennt réttaröryggi er talað um þyrlukaup upp á 14 milljarða, til kaupa á þremur nýjum björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Það er löngu kominn tími á það enda eru þyrlurnar um 30 ára gamlar að meðaltali. Það er stórt og skref og ánægjulegt að það sé að verða að veruleika. Þessar þyrlur þurfa að vera af ákveðinni stærð og hafa ákveðna flutningsgetu og geta sótt ákveðnar fjarlægðir, 220 mílur, ef ég man rétt, út fyrir landsteinana, út á hafsvæði, til að sækja tíu manns. Það er grunnurinn að þessum kaupum. Þetta eru öflugar vélar og það er mjög ánægjulegt að sjá fram á þetta. Það er líka ánægjulegt að sjá í þessu, eins og ég kom aðeins inn á áðan, átak í samgöngumálum. Það er eitt af þessum stóru áherslumálum í ríkisfjármálaáætlun, að bæta í. Á tímabilinu munum við klára verkefnið Ísland ljóstengt, sem er grunnverkefni, og ég held að það hafi gríðarleg áhrif á byggðaþróun á Íslandi til lengri tíma og sé ákaflega jákvætt verkefni. Við komum vel út í ýmsum mælikvörðum og eins og kemur fram í áætlun Alþjóðafjarskiptasambandsins erum við númer eitt í heiminum í þessum málum.

Ég myndi vilja koma aðeins inn á ferðaþjónustuna. Í störfum mínum í fjárlaganefnd hef ég lagt töluvert mikla áherslu á málefni sem tengjast ferðaþjónustu og þá líka flugrekstri í landinu. Þetta er svið sem er geipilega mikilvægt í efnahagslífi þjóðarinnar, málefni ferðaþjónustu. Á síðastliðnu ári voru gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu um 42% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, samanborið við 18% af sjávarútvegi og 14% af stóriðju. Því er ákaflega mikilvægt að ríkisvaldið hugi vel að þessari mikilvægu atvinnugrein, efnahagslega, varðandi rannsóknir og í öllu stóra samhenginu. Áhuginn á þessum málaflokki er að vaxa gríðarlega. Við sjáum það á umsögnunum, bæði í ár og í fyrra. Sjáum jafnvel töluverðan mun á milli ára í umsögnum, hvernig menn fjalla um ferðaþjónustuna í umsögnum sínum um ríkisfjármálaáætlunina. Í stóra samhenginu hefur verið kallað eftir frekari hagrænum rannsóknum í ferðaþjónustu, sérstaklega frá Eyjafjallajökulsgosi 2010, síðastliðin átta ár, til að það liggi fyrir hversu gríðarleg áhrif þetta hefur haft á efnahagslíf þjóðarinnar. Mjög áhugavert væri að fá greiningarnar, sérstaklega síðustu fjögur til fimm ár, á því hvað þetta hefur þýtt fyrir efnahagslífið og atvinnumál og þá stöðu sem við erum komin í, þ.e. hið mikla gjaldeyrisinnstreymi sem hefur fylgt þessum atvinnugreinum, ferðaþjónustu innan lands og flugrekstri. Þegar rætt er við hagfræðinga í dag, okkar færustu, hafa þeir ekki almennilega getað náð utan um það hvaða þýðingu þetta hefur haft í stóra samhenginu. Við vitum raunverulega ekki hversu mikil þessi áhrif eru. Þetta er nýr veruleiki. Þess vegna er ákveðin óvissa í umhverfi ríkisfjármálaáætlunar og það þarf að fara í gengum það hversu stórt og mikilvægt þetta mál er. Það er gríðarlega stórt í þessu samhengi.

Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að meiri hlutinn sé hlynntur því að gistináttagjaldið gangi til sveitarfélaganna. Við þekkjum það að mikil umræða hefur verið um það innan sveitarfélaganna hvernig verja eigi því þar. Það á eftir að ná endanlegu samkomulagi um hvernig því gæti verið háttað en við styðjum það, eins og kemur fram í álitinu, að skoða með jákvæðum hætti að sveitarfélögin fái gistináttagjaldið til sín. Þar með gæti orðið til nýr tekjustofn hjá sveitarfélögunum. Einnig hefur verið rætt um upplýsingamiðstöðvarnar í þessu samhengi, hvernig menn vilji sjá þær í framtíðinni, hvernig standa eigi að rekstri þeirra. Ef ég man rétt eru sveitarfélögin að leggja 300 milljónir í upplýsingamiðstöðvarnar í dag en ríkið leggur, að mig minnir, 35 milljónir á móti; spurning hvernig gistináttagjaldið gæti komið inn í þessa umræðu. Það er sérstakt, eins og kom kannski fram í umræðunni í dag, að erfitt hefur verið að ná utan um það hversu margir vinna í ferðaþjónustunni. Það er hægt að ná mun betur utan um það; að þekkja það umhverfi. Hagskýrslugerðin hefur kannski ekki verið nægilega góð hvað það varðar að gera fulla grein fyrir þessu. Enn fremur kemur fram í meirihlutaálitinu að gjaldeyristekjurnar, sem voru á síðasta ári um 500 milljarðar, geti eftir tvö ár orðið um 620 samkvæmt áætlunum þeirra sem gerst þekkja.

Ég vil gera lítillega grein fyrir íslenskum flugrekstri hér og benda á að á undanförnum árum hafa umsvif í íslenskum flugrekstri stóraukist. Þotum sem fljúga til og frá Íslandi á vegum íslenskra flugrekstraraðila í áætlunarflugi hefur fjölgað úr 16 vélum árið 2010, árið sem Eyjafjallajökull gaus, í 47 árið 2017. Miðað við þær fréttir sem berast af Icelandair og Wow Air má reikna með að millilandaflugvélum sem þeir aðilar reka haldi áfram að fjölga hratt á næstu árum. Reiknað er með að þessi tvö flugfélög reki 57 þotur í lok þessa árs. Því er spáð að þær geti orðið allt að 80 til 90 innan þriggja ára. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu eru orðnar gríðarlega miklar. Á síðastliðnu ári voru þær, eins og ég sagði áðan, 42% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þessar gjaldeyristekjur skiptast fyrst og fremst í tvo hluta, annars vegar af ferðaþjónustu innan lands og hins vegar af íslenskum flugrekstri. Þetta eru gjaldeyristekjur sem myndast vegna flugs með erlenda ferðamenn til og frá Íslandi og tengiflugs á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Svo má benda á að þetta á líka við um Air Atlanta sem er að fljúga vítt og breitt um heiminn. Þær tekjur sem myndast af þeim rekstri koma í hagtölunum þarna undir. Með tilliti til þess leggur meiri hlutinn til að í hagskýrslum verði gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar skipt í tvo hluta, annars vegar gjaldeyri sem myndast innan lands, þ.e. tekjur af komum erlendra ferðamanna til Íslands, og hins vegar gjaldeyristekjur af íslenskum flugrekstri. Tilfinningin er sú að í dag séu gjaldeyristekjur af flugrekstrinum svipaðar og af sjávarútvegi og stóriðju í landinu. Það á algerlega eftir að meta það umhverfi sem er komið upp, þetta hefur gerst á örskömmum tíma. Við skulum huga að því að árið 1990, þegar leiðarkerfi Icelandair eins og við þekkjum það var sett í gang, voru sjö millilandaþotur í rekstri. Umfangið er orðið gríðarlega stórt og mikið en við þekkjum ótrúlega lítið áhrifin, hvað þetta raunverulega þýðir í samhengi hlutanna í efnahagslífi þjóðarinnar.

Árið 2011 kom út skýrsla Oxford Economics þar sem þetta umhverfi var skoðað. Þá kom fram að í landsframleiðslu komu 6,6% af flugrekstrinum. Í dag telur samgönguráðuneytið það vera á milli 12 og 14%. Sem er, eins og ég hef oft bent á í pontu Alþingis, áttfalt á við það sem við sjáum almennt í hinum vestræna heimi; áttfalt til tífalt stærra í okkar umhverfi en almennt gerist í hinum vestræna heimi. Þetta er því gríðarlega stórt og mikið og ég tel mikilvægt að frekari rannsóknir fari fram á þessu og jafnvel að þessi skýrsla frá 2011 verði endurtekin og unnin með nýjustu upplýsingum sem til eru varðandi þessa atvinnugrein og hagtölur tengdar henni; það þarf að skoða betur samhengið, stóru myndina í þessu. Varðandi ferðaþjónustu og flugrekstur er kannski kominn tími til að hugsa hlutina aðeins öðruvísi. Þegar við tölum um sjálfbæra atvinnugrein er talað um efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega þáttinn. Hingað til höfum við mest verið að hugsa um efnahagslega og umhverfislega þáttinn og því er kannski kominn tími til að fara að skoða betur samfélagslega þáttinn af atvinnugreininni. Á Suðurnesjum sjáum við til dæmis gríðarlega hraðan vöxt erlends vinnuafls á svæðinu. Fjárlaganefnd fékk í vetur upplýsingar um að 20% íbúa í Reykjanesbæ væru af erlendu bergi brotnir og 22%, ef ég man rétt, í Sandgerði. Þetta er ótrúlega hröð þróun. Ef masterplanið hjá Isavia gengur eftir, það sem menn eru að stefna á, að 2025 verði 15 milljónir farþega og 25 milljónir 2040, eru það þessi samfélagslegu áhrif sem ég tel nauðsynlegt að menn greini og átti sig á hvað þýða í samhengi hlutanna, samfélagslega. Í umhverfismálum er gríðarleg aukning; 47% raunaukning í það málefnasvið sem er hlutfallslega næstmesta hækkun allra málefnasviða. Aðeins lyfjakostnaður hækkar meira miðað við ríkisfjármálaáætlunina. Meiri hlutinn leggur áherslu á að forgangsraðað verði til skógræktarmála, minnst er á það í áliti meiri hluta. Bent er á að framlög til skógræktarmála hafi dregist mjög saman árin eftir bankahrunið en fjárfesting í þessum málaflokki styður við mörg markmið stjórnvalda í umhverfismálum.

Nú fer að styttast í tímanum. Ég vil rétt í lokin benda á tvö málefnasvið sérstaklega. Annars vegar eru það málefni aldraðra sem töluverð athygli hefur beinst að í fjárlaganefnd og í samfélaginu öllu. Á síðustu misserum og árum hefur orðið frekari umræða um það. Í meirihlutaálitinu er bent á að áætlað sé að hlutfall fólks 67 ára og eldra hækki úr 12% af mannfjölda í dag í 19% árið 2040 og 22% árið 2060. Það þarf að finna góðar lausnir á þessu. Þetta verður aldrei unnið með því að fjölga hjúkrunarrýmum; það þýddi að við þyrftum á mjög skömmum tíma að fjölga hjúkrunarrýmum í landinu um helming. Við þurfum að finna góðar hugmyndir um hvernig við ætlum að reyna að hægja á þeirri þróun. Þá hef ég oft vísað í Dr. Janus Guðlaugsson og þá vinnu og rannsóknir sem hann hefur verið með á þessu sviði, að styrkja eldri borgara þannig að þeir geti dvalið lengur heima hjá sér.

Alveg í lokin er það það sem við höfum rætt mikið í fjárlaganefnd í vetur sem snýr að örorku, örorku og málefnum fatlaðs fólks, sem er málefnasvið 27. Þá kemur í ljós — nefndin hefur fengið margar heimsóknir í vetur — að öryrkjum hefur fjölgað mjög síðustu fimm til sex ár. Þetta er í sjálfu sér ákveðin bylgja. Við þurfum einhvern veginn að finna út úr því og þetta er ekki bara á Íslandi heldur almennt í hinum vestræna heimi. Þegar maður fer að tala við erlenda þingmenn er þetta ekki bara að gerast hér á landi. Það er eitt af allra stærstu verkefnunum í núinu að átta sig á hvernig þetta er tilkomið og hvað við getum gert til að bæta úr þessari stöðu.