148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að ræða um stefnumótun stjórnvalda. Mér finnst gæta þess vana að tala bara um hvað sé keypt fyrir peninginn, ekki hvað við fáum fyrir hann. Það hefur verið orðað hér nokkrum sinnum í dag að það sé nauðsynlegt að vita hvað við fáum fyrir peninginn. Þegar við teljum upp þyrlur sem við kaupum er samt ekki verið að segja hvað við fáum, þ.e. hvað þyrlurnar gera og hvaða vandamál þær leysa. Við þurfum að vera með fyrir framan okkur hvaða vandamál eru uppi. Því er ágætlega lýst í fjármálaáætlun þar sem farið er yfir stöðu málefnasviðsins. En í kjölfar þess að vita stöðuna, hvert sé vandamálið, þurfum við að stinga upp á lausnum, sem er stefnan, með ákveðna mælikvarða á það hvernig við, með þessari stefnu, leysum vandamálið. En eins og kannski hefur oft komið fram vantar þó nokkuð upp á þennan hluta, bæði markmiðið, að augljóslega sé verið að leysa það vandamál sem staðan lýsir, og mælikvarðana, til þess að við vitum í raun og veru hvert við ættum að vera komin fyrir þann pening sem við setjum í verkefnið.

Þetta er lykilatriði sem mér finnst við þurfa að draga aðeins betur fram. Það er miklu auðveldara að segja bara: Við ætlum að kaupa þrjár þyrlur, vandamálið er leyst. Það er ekki nóg. Það er ekkert auðvelt að tala um vandamál, stefnu, markmið og mælikvarða, það er auðveldara að segja bara: Kaupum þrjár þyrlur. Ég held að við þurfum að fara (Forseti hringir.) meira í hina áttina. Ef hv. þingmaður vill ræða um það væri það vel þegið.