148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:44]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var tiltölulega opin spurning. Ég gæti talað um þyrlurnar, út á hvað þær ganga. Það er mjög vel skilgreint. Eins og ég rétt náði að koma inn á áðan er algerlega skilgreint hvað viðkomandi þyrlur eiga að geta gert. Það sem ræður því að við ætlum að kaupa þessa ákveðnu tegund af þyrlum er að þær geta borið tíu manna áhöfn, 220 sjómílna leið út frá ströndum landsins. Það er algerlega skilgreint hvaða markmið er að baki.

Þetta er kannski eitthvað sem gerist miðað við skýrsluna sem við lásum í fyrra og tókum sérstaka umræðu um. Í þessu tiltekna máli viljum við eiga kost á því, þótt það sé ekki nema í örfá skipti, að menn geti farið langt út frá landinu á Norður-Atlantshafið og tekið tíu manns. Þetta er bara okkar skilgreining. Norðmenn eru með aðra skilgreiningu, 20 manns, aðeins styttri leið. Þeir eru með fleiri skilgreiningar. Ég er nýbúinn að kynna mér málefni þeirra í Noregi, um leit og björgun á Norður-Atlantshafinu.

Það er varla hægt að ræða þetta á svona stuttum tíma. (Gripið fram í.) Hvað þá korter í tólf að kvöldi. (Gripið fram í.) Hvað vil ég fá fyrir peningana? Auðvitað er þetta lykilatriði í öllum ríkisfjármálunum, hvað við ætlumst til að fá fyrir peningana. Hvort sem við erum að taka ákvarðanir um hjúkrunarrými, kröfulýsingar þar eða hvað, þetta er lykilatriði í öllu sem við gerum. Við verðum að vita hvað við erum að gera. Ef til vill var hv. þingmaður að fara í átt að, ég man ekki á íslensku, afsakið, frú forseti, „balanced scorecard“, sem var voðalega vinsælt fyrir einhverjum árum, græna, gula og rauða ljósið. Þetta er lykillinn að öllu í okkar ríkisfjármálum, markmiðin. Við getum hent peningum út hægri, vinstri og út um alla glugga en ef við mælum ekki hvað við fáum fyrir þá vitum við ekkert hvar við stöndum.