148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég fá að lýsa stuttlega yfir ánægju með margar af þeim ræðum sem hafa verið fluttar undanfarið því að í mörgum þeirra er tæpt á því að menn þurfi að fá meiri þjónustu fyrir þá peninga sem fara í kerfið hjá okkur í staðinn fyrir að mælikvarðinn á árangur sé fleiri krónur, þá er það meira fyrir krónurnar.

Ég get ekki komið inn í umræðu um fjármálaáætlun nema segja nokkur orð í byrjun um hin nýlegu lög um opinber fjármál sem má segja að séu á fyrsta hring sínum í framkvæmd. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið dálítið hugsi í gegnum fyrsta þing þessa kjörtímabils því að upplifun þess sem hér stendur hefur verið sú að þingið hafi selt af hendi sér mun meiri áhrif og völd hvað fjárstýringuna varðar en menn hafi sennilega ætlað sér. Ég er mikill fylgismaður þess að meiri festa sé í ríkisfjármálum og menn plani lengra fram í tímann en verið hefur, en svo ég taki dæmi er skógrækt eitt af þeim málum sem mörgum eru hugleikin hér innan dyra. Sá sem hér stendur er formaður umhverfis- og samgöngunefndar og þar hefur okkur gengið alveg sérstaklega illa að fá fram upplýsingar um það hvernig menn sjá fyrir sér að verja þeim fjármunum sem varið er til þess ramma sem skógrækt fellur undir hvað fjárveitingar til umhverfisráðuneytisins varðar. Ég gef mér að þetta hafi ekki verið hugsunin hjá þingmönnum þegar nýju reglurnar voru samþykktar. Þarna ráðherra hvers málaflokks í rauninni kominn með fjárveitinguna til sín. Það er einhver púllía með ákveðið mörgum milljörðum og svo spilar hann úr því innan ákveðinna ramma. En mín upplifun er sú að þrengt hafi mjög að getu þingmanna og nefnda til að kalla eftir upplýsingum og í rauninni hafa áhrif á það hvert ákveðnar upphæðir fara. Aftur tek ég dæmið um skógræktina þar sem upplifun margra í umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið sú að upplýsingar og svör náist ekki út nema með töngum. En ég vona að úr því verði bætt þegar þing kemur aftur saman í haust og að við færum samskiptin til betri vegar.

Þá að efnisatriðum fjármálaáætlunarinnar. Ég ætla að segja nokkur orð um samgöngumál. Við erum í þeirri stöðu að samkvæmt fjármálaáætluninni er áætlað að halda þeim takti sem verið hefur að viðbættum 5,5 milljörðum á árunum 2019, 2020 og 2021, samanlagt 16,5 milljörðum til uppbyggingar samgöngukerfisins. Það álítur sú ríkisstjórn sem hér situr vera stórátak í samgöngumálum, í uppbyggingu vegakerfisins. Það er auðvitað ekkert stórátak. Þetta er eins og Samtök iðnaðarins hafa kallað það, dropi í hafið. Sú uppbyggingarþörf, bæði hvað nýframkvæmdir varðar og síðan hvað uppbyggingu vegakerfisins varðar á stórum köflum, er af slíkri stærðargráðu að við erum svo fjarri því að ná í skottið á okkur með þær fjárveitingar sem eyrnamerktar eru til þeirra hluta. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því hvað þingheimur og ríkisstjórnin veigrar sér við að fara í gegnum þessa umræðu. Hún er mjög aðkallandi og tjónið sem er að verða á samgöngukerfi landsins jafnt og þétt er gríðarlegt. Það er ótrúleg staða að finna sig í, og ég hef komið fram með það í ræðum áður, að ráðherrar þurfi að seilast í neyðarsjóð, svokallaðan varasjóð, til að bregðast við ástandi á vegum sem öllum var ljóst að væru vart á vetur setjandi þegar fjárlög voru afgreidd í desember. Þetta er atriði sem ég held að við verðum að taka til alvarlegrar skoðunar og nálgast vandamálið með galopin augun.

Mig langar örlítið að koma inn á kolefnisgjald. Það er eitt af þeim gjöldum sem hækkað var í desember um 50%. Ríkisstjórnin sem sat á undan áætlaði að hækka það um 100% en nú var það hækkað um 50% og fyrirheit um að hækka það um 10% á ári næstu tvö árin, ef ég man rétt. Við Miðflokksmenn greiddum auðvitað atkvæði gegn þeirri skattahækkun og ég lofa því hér með að ég ætla að greiða atkvæði gegn þeim 10% sem félagar mínir í stjórnarflokkunum ætla að leggja til næsta desember og svo ætla ég aftur að greiða atkvæði gegn þeirri 10% hækkun sem þeir eru búnir að lofa okkur ári síðar.

Fram kom í andsvari fyrr umræðunni áhugaverð nálgun hjá fulltrúa Vinstri grænna í fjárlaganefnd, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Sú nálgun kom svo sem ekki á óvart því að hún hefur komið fram áður hjá henni og víðar: Það á að fara í mótvægisaðgerðir. Þær eru raunar nauðsynlegar til að þetta velti ekki út í verðlag og skapi verri rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki og heimili, sérstaklega úti á landi. En gengur þetta þá allt upp á punt, einhvern sýndarskap? Það er mikið lagt upp úr því að hækka kolefnisgjald undir fána grænna skatta, en svo á að „kanalera“ þeim pening til baka inn á svæðin til að það fari ekki út í verðlag. Er ekki skárra að sleppa skattlagningunni? Ég gef mér að þeir sem sitja í salnum séu flestir tiltölulega sammála því, enda skynsamir menn upp til hópa.

Ég legg alla vega til að þeir sem eru í salnum núna gangi í lið með mér með að hafna þeirri 10% hækkun næsta desember sem er búið að tilkynna og hafna sömuleiðis þeirri 10% hækkun sem er búið að tilkynna ári seinna á hinum svokölluðu kolefnisgjöldum. Þetta er eitthvert punt sem við ættum ekki að eyða orku í að rúlla heilan hring í kerfinu til að það endi allt saman á núlli.

Mig langar örsnöggt til viðbótar að koma inn á tryggingagjaldið. Það hefur gengið afskaplega hægt að ná þeim stofni niður hvað fyrirtæki landsins varðar og engin fyrirheit um það, eða ég ætla ekki að segja engin en þau eru mjög hófleg skilaboðin sem send eru í þessari fjármálaáætlun hvað tryggingagjaldið varðar, sem er enn þá miklu hærra en það væri ef það væri einhvers staðar í námunda við álagningarhlutfallið sem var hér fyrir hrun þegar atvinnuleysi var a.m.k. ekki meira gagnvart nýtingu þessara fjármuna en nú er.

Eitt atriði til viðbótar sem mig langar að koma inn á er fjármögnun og kem ég þá aftur inn á samgöngumálin. Ég hef gagnrýnt reglulega að þeir sem nota samgöngumannvirki landsins, þá sérstaklega vegina, séu skattlagðir miklum mun meira en sanngjarnt getur talist. Ég er aðeins með tölurnar frá 2016 í kollinum en þá var það þannig að ef við tökum virðisauka af upphæðunum runnu 46 milljarðar til ríkissjóðs af ökutækjum og umferð á vegum landsins og 21 milljarði varið til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. Það fer sem sagt innan við helmingur af skatttekjum ríkisins af ökutækjum og umferð í það. Þá segja menn: Einhvern veginn verður að borga samneysluna. Það er alveg gilt sjónarmið. Við höfum m.a. tekjuskatt, virðisauka og fleiri leiðir til þess. En þá verða menn að spyrja þeirrar sanngjörnu spurningar, og fá jafnvel svar við henni: Af hverju eiga þeir sem þurfa að nota vegakerfið að borga miklu hærri skatta til samneyslunnar, sem nemur rúmlega 50% af þeim gjöldum sem lögð eru á ökutæki og umferð, þegar þeir sem nota ekki bílinn til ferðalaga sleppa? Með fullri virðingu fyrir hjólreiðamönnum og þeim sem eru svo heppnir að geta gengið til vinnu og til þeirra starfa sem þeir þurfa að sinna dags daglega og þurfa ekki að nota bíl til að koma sér á milli, af hverju eiga þeir hópar að borga sem því nemur minna til samneyslunnar? Við því hef ég aldrei fengið svar og það svar er sannarlega ekki í fjármálaáætluninni.

Mig langar í lokin, af því ég ætla ekki að hafa tölu mína mikið lengri í kvöl, að koma aftur inn á varasjóðinn sem ég minntist á fyrr í kvöld, sem mér hefur þótt gengið um með býsna frjálslegum hætti miðað við það regluverk sem um hann er. Varasjóðurinn var alveg örugglega ekki til þess ætlaður að vera eins konar ráðstöfunarfé ráðherra til að bjarga í horn gagnvart málum sem þeir komu ekki í gegn í fjárlagagerð undangengins desembermánaðar. Það getur ekki verið. Það er ekkert í regluumhverfinu sem bendir til þess að það hafi verið hugsunin, að menn gætu notað sjóðinn til að bjarga sér út úr málum sem voru fullkomlega fyrirsjáanleg. Það er ekkert óvænt við ástand vegakerfisins, ekki neitt. Við eigum að nálgast það með þeim hætti að fara varlega í þeim efnum og fara að reglunum, því að eins og hv. þm. Óli Björn Kárason sagði fyrr í kvöld þá skiptir engu máli hverjar reglurnar eru ef menn fara ekki eftir þeim.

Það hvernig hinn svokallaði varasjóður er hanteraður í fyrstu umferð setur miklar efasemdir í huga minn hvað það varðar að hér séu uppi áform um mikinn þjóðarsjóð, eða hvaða nöfnum sem menn vilja kalla þær áætlanir. Ef þjóðarsjóðurinn svokallaði á að virka eins og varasjóðurinn þá verði þetta bara enn ein leiðin þar sem Alþingi afsetur áhrif sín hvað fjárveitingavaldið varðar yfir til ráðherra og embættismannakerfisins. Ef það var planið er ágætt að það komi fram.

Ég ætla ekki að hafa ræðuna lengri. Ég vona að okkur hlotnist að setja orku í að vinna nýja nálgun á það hvernig við metum þann árangur sem við náum með fjárveitingum sem veitt er inn í ríkiskerfið. Það kom fram fyrr í umræðunni að árið 2023 áætla menn að 249 milljörðum verði varið til heilbrigðismála, ef ég man töluna rétt. Það eru gríðarlegir fjármunir. Ég hef ekki séð miklar vangaveltur í því samhengi um það hvernig menn ætla að nýta þá peninga sem best. Það þarf ekki mikinn framlegðarauka í kerfinu til að það fari að skipta verulegu máli þegar upphæðirnar eru svo stórar.

Ég vona að slík vinna fari af stað strax í haust og menn gangi af einurð til hennar og með það að markmiði að ná árangri í málum sem skila einhverju og skipta máli, en það verði ekki eitthvert endemis punt eins og þetta kolefnisgjald virðist vera.