148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir prýðisræðu. Hann kom inn á margt og við hæfi að formaður umhverfis- og samgöngunefndar fari yfir samgöngumál. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að sú viðbót — 5,5 milljarðar til næstu þriggja ára, 16,5 milljarðar — sem fer í samgönguframkvæmdir dugar ekki í það sem hefur verið látið sitja hjá í ansi langan tíma. Það er alveg hárrétt. Hv. þingmaður hefur svarað þessu í andsvari við aðra hv. þingmenn ágætlega og bendir á þessa þörf, þessa uppsöfnuðu þörf. Ég vil spyrja um hugmyndir hv. þingmanns um fjármögnun á þessari uppsöfnuðu þörf sem er veruleg. Hv. þingmaður vildi meina að ráðherrar og hæstv. samgönguráðherra hefðu ekki viljað horfast í augu við þetta, en ég held að tveir síðustu hæstv. samgönguráðherrar hafi rætt það að leita leiða til að gefa í í þessum málum.

Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á því hvernig við leysum það. Við höfum verið með ívilnanir hér til kaupa á rafmagnsbifreiðum og þeim sem ekki brenna eldsneyti. Það verða einhverjir að borga fyrir að nota vegina. Ég tek undir það með hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að þeir sem nota vegina verða hreinlega að borga fyrir það. Það blasir við að við þurfum að fara í heildarendurskoðun á því hvernig við fjármögnum það.