148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það mál sem við erum að afgreiða hér er kannski merkilegra fyrir þeirra hluta sakir hvað er ekki í því frekar en vegna innihaldsins út af fyrir sig. Það er reyndar svo að það eru tekjugöt í þessu frumvarpi. Þau birtast til dæmis í því að menn hættu við að innheimta bankaskatt upp á 6 milljarða, sem hefði getað komið sér mjög vel, og síðan er þessi hræðilega bankasala, sem hefur verið kölluð svo en er náttúrlega gjöf til vogunarsjóða, þ.e. salan á hlut ríkisins í Arion banka, og sú staðreynd að ríkið skyldi ekki nýta sér þann forkaupsrétt sem geðstirður fjármálaráðherra hefur sagt til skiptis að hafi verið fyrir hendi og sé ekki fyrir hendi. Ekki er gott að henda reiður á því hvað við er átt.

Það er sem sagt komið í ljós núna að verið er að selja Arion banka á markaði töluvert undir því verði sem vænst var að ríkið myndi fá fyrir bankann og alveg klárlega langt undir því verði sem komið hefði fyrir bankann ef ríkið hefði nýtt sér þann forkaupsrétt sem það, samkvæmt sama hæstv. fjármálaráðherra, á greinilega. Menn eru byrjaðir að selja eignir út úr þessum banka. Menn eru byrjaðir að selja Jarðboranir, vegna þess að þeir treystu sér ekki til að selja Valitor, sem er kannski feitasti bitinn inni í þessum banka, bókfærður á 17 milljarða eða þar um bil, en söluverðið er væntanlega 70. Þarna er um að ræða upphæðir sem hefði verið gott og nytsamlegt að fá inn í fjármálaáætlun til að ríkissjóður gæti haft gagn af.

Fyrir þetta fé hefði til dæmis mátt lagfæra kjör aldraðra og öryrkja eins og búið er að heita þessum hópum. Það er til dæmis eitt atriði sem við Miðflokksmenn ánýjuðum reyndar hér í desember sl. við afgreiðslu fjárlaga, það er að atvinnutekjur aldraðs fólks rýri ekki lífeyristekjur. Þetta kostar klink, en þetta myndi muna þennan hóp, sem er væntanlega 4.000 manns, verulegum upphæðum sem gæti hjálpað þeim til að ná betur endum saman.

Að sjálfsögðu hefðu þeir peningar sem hefðu getað komið fyrir bankann aldeilis lappað upp á þá hungurlús sem menn eru núna að mylgra í vegakerfið, 5,5 milljarðar í þrjú ár — það er eiginlega bara til þess að rykbinda — og síðan að ryksuga innan neyðarsjóðinn upp að hálfu, upp á 4 milljarða. Þetta er náttúrlega ekki gæfuleg fjármálastjórn. Tilgangurinn með lögum um opinber fjármál var kannski að skapa festu til lengri tíma, en síðan eru menn að draga kanínur upp úr hatti hér og hvar við þessa afgreiðslu. Það er kannski það sem stendur upp úr í þessari tillögu að fjármálaáætlun, það er það sem vantar.

Það sem vantar líka mjög sárlega inn í þessa áætlun eru aukin útgjöld til löggæslumála. Við höfum því miður séð það undanfarið — og auðvitað óttaðist maður að þessi tími myndi koma — að erfiðum og alvarlegum slysum er að fjölga og ferðamenn láta hér lífið og slasast í mjög auknum mæli. Það er mjög alvarlegt mál. Það var búið að vara við þessu ítrekað en því miður fyrir daufum eyrum.

Eins er varðandi hina hliðina á peningi sem heitir löggæsla, þ.e. tollgæsluna. Í hana hefur sáralitlu fé verið varið, því miður. Lögregla og tollgæsla til samans eru þau öfl sem varna því að hingað til lands flæði efni sem við kærum okkur ekki um, hvort sem það eru ólögleg vopn, fíkniefni eða hvað það er. Það vantar algjörlega að kasta ljósi á þessa þætti í þessari tillögu.

Það er líka eitt atriði í viðbót sem hefur í sjálfu sér leitað á þann sem hér stendur. Hann stóð að því að samþykkja þessi lög árið 2015, ef ég man rétt, í desember. Auðvitað var það gert í þeirri trú að það væri til að festa í sessi betri vinnubrögð við fjármál ríkisins til lengri tíma og til að auka aðhald í ríkisrekstri o.s.frv. En það sem upp úr stendur, þegar maður horfir á það hvernig þessi lög virka, er að þau eru væntanlega stærsta valdaframsal sem framkvæmt hefur verið lengi, þ.e. frá Alþingi til embættismannakerfisins.

Það er nú einu sinni svo, án þess að ég sé nokkuð að hnýta í embættismenn eða gera lítið úr þeirra starfi, að þeir eru ekki pólitískt kjörnir fulltrúar, þeir eru það ekki. Þeir menn sem halda um fjárlagagerð og fjármálaáætlunarvinnu þurfa ekki á einhverjum tímafresti að leggja störf sín í dóm eins eða neins, þeir bera sem sagt ekki ábyrgð. Með þessu er í sjálfu sér verið að taka pólitíkina út úr hvoru tveggja, út úr fjármálaáætlun og út úr fjárlögum. Þegar ég kom hér inn 2013 fyrst, hafandi bakgrunn bæði úr embætti úr ráðuneyti, fannst mér að verið væri að reyna að minnka áhrif kjörinna fulltrúa kerfisbundið með öllum mögulegum ráðum. Þetta er eitt af því sem við Miðflokksmenn höfum bent á þegar við höfum talað um að kerfið sé orðið alltumlykjandi og pólitísk áhrif séu þverrandi. Af hverju er það slæmt? Það er út af því sem ég sagði hér áðan, það er út af þeirri ábyrgð sem pólitískt kjörnir fulltrúar bera. Til þess erum við kjörin hingað að hafa áhrif til skamms og langs tíma á þau málefni sem við teljum brýnast að unnið sé að hér á landi.

Eins og nú er þá er það í valdi ráðherra að hrókera innan málefnasviða ákveðnum fjárhæðum. En áhrif okkar alþingismanna, til að hafa bein áhrif þar á, eru algjörlega í lágmarki. Þetta held ég að við þyrftum að gaumgæfa. Nú er ég ekki að leggja til að lög um opinber fjármál verði felld úr gildi, en ég held að sá tími sé kominn að við verðum að finna leiðir til að auka áhrif kjörinna fulltrúa á fjármál ríkisins.

Það sem er kannski sárast við þetta núna er það að fjármálaáætlun er út af fyrir sig ekki vel unnið plagg. Hún kom seint fram. Við erum að ræða hana í kapphlaupi við tímann, illa undirbúin. Þetta verklag er ekki til fyrirmyndar. Auðvitað á að taka þetta málefni fyrir með vönduðum hætti þannig að þingmönnum gefist gott tækifæri til að gaumgæfa áætlunina og mynda sér skoðanir á einstökum þáttum hennar og fara grundigt yfir hana.

Það er annað sem ég saknaði í þessari fjármálaáætlun. Það er áætlun eða áminning, ef ég get orðað það þannig, um hagræðingu í ríkisrekstri. Hana er hvergi að finna. Með því að sameina stofnanir, stækka þær, er hægt að spara verulegt fé. Þannig vill til að mjög nýlega átti ég fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um skýrslu um fornleifarannsóknir. Fornleifarannsóknir og umsýsla með fornmuni er á hendi fjögurra stofnana. Það þýðir að það eru fjögur sett af yfirstjórn innan þessa geira. Þetta er að sjálfsögðu fjársveltur geiri eins og mjög margt annað. Menn hafa kannski ekki verið að forgangsraða akkúrat í þennan málaflokk frekar en margt annað sem til er í menningu og sögu þessarar þjóðar. En við höfum efni á því að hafa fjórar stofnanir til að vinna að þessum verkum. Nú hef ég ekki fengið tækifæri til þess, af því að skammt er um liðið frá því þetta kom fram, til að fara yfir það hvort það geti verið að starfsemi þessara stofnana skarist með einhverjum hætti, hvort boðleiðir séu ekki skýrar o.s.frv. Ég ætla ekkert að varpa skugga á starfsemi þessara fjögurra stofnana heldur nefni ég þetta bara sem dæmi um það hvað við erum aftarlega í því að koma hagræðingu á dagskrá.

Ég held að það væri líka verðugt verkefni fyrir hv. fjárlaganefnd að fara í gaumgæfilega athugun á því hversu margar stofnanir við höfum þar sem eru kannski einn til þrír menn í vinnu, eitt til þrjú stöðugildi. Við erum með hámenntað fólk út um allt land í smáum stofnunum, sem er í sjálfu sér að stimpla reikninga til bókhalds í staðinn fyrir að gera það sem þetta fólk gerir best. Hvaða árangri skilar það að sameinum stofnanir? Það er ekki einvörðungu það sem ég var að segja að fjárhagslegur ávinningur verði þar af og að við getum tónað niður yfirstjórnir þessara stofnana, heldur það að faglegur slagkraftur eykst oft verulega, vegna þess að þessar stofnanir eflast. Það eru svo margar ástæður sem liggja til þess að við beitum okkur verulega þarna.

Því heiti ég á fjárlaganefnd að taka þetta til sérstakrar athugunar núna inn í næstu fjárlög sem eru í raun fyrstu pólitísku fjárlög sem koma fram frá þessari ríkisstjórn, því að þau sem við afgreiddum í desember voru embættismannafjárlög. Þar var engin pólitísk stefna út af fyrir sig, menn bara mölluðu áfram og margir höfðu engin áhrif á það hvernig þau fjárlög litu út.

Ég verð að minnast á eitt að síðustu, það er veiðigjaldafrumvarpið — menn voru tilbúnir til að lækka veiðigjöld verulega, flatt yfir. Það átti ekki að skipta nokkru máli hvort um var að ræða trillukarl norður í landi eða stórútgerð. Ástæðan fyrir því að nú er horfið frá áætlunum um að lækka veiðigjöld, að þau eigi að vera óbreytt — hver er ástæðan sem gefin er upp? Hún er sú að þingið komist frá störfum með þokkalegum hætti á þokkalegum tíma. Það er ekki það að fólkið í landinu sé ævareitt yfir þeim hugmyndum sem komu fram. Það er ekki verið að bakka með þetta út af því. Nei, heldur bara til þess að þingið komist heim á skikkanlegum tíma. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér finnst þetta alveg rosalega ódýr yfirlýsing og ekki sú sem ég hefði vænst úr þeirri átt sem hún kom.

Auðvitað er mikilsvert að við afgreiðum þessa fjármálaáætlun og við afgreiðum hana í sæmilegri sátt, en það er samt skylda okkar sem hér erum að rýna hana til gagns og benda á það sem augljóslega mætti fara betur við afgreiðslu hennar. Að öðru leyti þakka ég fyrir.