148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla í örstuttu máli að draga fram nokkur atriði í fjármálaáætlun, annars vegar er lúta að skattkerfisbreytingum og hins vegar að þeim þáttum er snúa að heilbrigðiskerfinu. Það er nokkuð ljóst við yfirlestur fjármálaáætlunar að hún byggir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem megináherslurnar eru á innviðauppbyggingu, eins og margoft hefur komið fram. Það er gert gríðarlegt átak í þá veru og einkum og sér í lagi þegar litið er til heilbrigðiskerfisins. Gert er ráð fyrir mjög auknum fjármunum til þeirra þátta.

Eðli málsins samkvæmt mun í samfélagi sem er ekki stærra en hið íslenska áhersla á innviðauppbyggingu á tiltölulega fáu málefnasviðum, þ.e. heilbrigðiskerfi, samgöngu- og menntamálum, að einhverju leyti hafa áhrif á innviðauppbyggingu annars staðar og bendir nefndin raunar á það, sérstaklega velferðarnefnd og að einhverju leyti efnahags- og viðskiptanefnd. Það er líka mikilvægt að muna að við getum ekki heldur látið það stoppa okkur sem samfélag að stórframkvæmdir hafi áhrif annars staðar og þar með ættum við alltaf að draga lappirnar við að koma okkur af stað og fara í þær framkvæmdir. Það er vert að muna.

Þær forsendur sem eru gefnar fyrir áætluninni, 2,9% hagvöxtur á þessu ári og um 2,5% á gildistíma áætlunarinnar, kunna mörgum að finnast bjartsýnar. En það er náttúrlega eins með önnur mannanna verk sem byggjast á því að horfa fram í tímann að við getum aldrei verið alveg viss, getum aldrei reynt betur en að draga ályktanir af því hvernig fortíðin hefur verið og giska á hvernig framtíðin verður. Við gerum það í þessari áætlun. 2,5% hagvöxtur áfram hefur verið gagnrýndur sem möguleg bjartsýni vegna þess að þá muni heildarhagvaxtarskeiðið verða svo langt. Ég held að í sjálfu sér væri það ekki áhyggjuefni að hagvaxtarskeiðið yrði lengra, yrði langt. En ég held að íslenska hagkerfið sé núna miklu betur undir það búið en oft áður að taka við því ef þannig færi að hnökrar yrðu á hagvextinum. Þá er rétt að nefna sérstaklega að bara fyrir 20 árum síðan voru stoðirnar undir íslenska hagkerfinu, þ.e. stærstu stoðirnar, í grundvallaratriðum tvær til þrjár en eru núna nær því að vera fjórar til fimm. Það breytir mjög miklu.

Við erum með styrkar stoðir eins og sjávarútveg, ferðaþjónustu, hugbúnaðargeirann, raforkuframleiðslu og fleiri þætti sem allir til samans eru miklu líklegri til að halda utan um og standa undir því hagkerfi sem við erum með en sá mónókúltúr, ef ég leyfi mér að nota það orð, sem einkenndi íslenska hagkerfið alla 20. öldina og framan af þeirri 21. Það er mjög mikilvægt að horfa til þeirra þátta. Það eykur líkurnar á að spár eins og þessar muni raunverulega standast.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur sérstaka áherslu á í plaggi sínu að við breytingar á tekjuskattskerfinu skoðum við af fullri alvöru að þær verði ekki bara flatur niðurskurður á einhverri tekjuskattsprósentu, heldur verði horft til þess að tekið verði á persónuafslættinum og reynt að nota hann þannig að hann nýtist þeim sem mest þurfa á því að halda. Þetta er afar mikilvægt og er þá horft til þess að nýta skattkerfið sem það jöfnunarkerfi sem a.m.k. við í Vinstri grænum höfum alltaf talið að það eigi að vera.

Það er annað sérstakt fagnaðarefni í breytingunum, þótt ég ætli ekki í smáatriðum ofan í það allt saman, en gistináttagjaldið til sveitarfélaganna er eitthvað sem lítið eitt hefur verið rætt í þessari umræðu. Þar erum við að tala um flutning gjaldstofns til sveitarfélaganna sem í dag er einhvers staðar á bilinu 2,5–3 milljarðar, innheimtist gistináttagjald fyrir allar þær gistinætur sem í boði eru. Það er gríðarlega mikill búhnykkur fyrir sveitarfélögin. Þau okkar sem hafa farið eitthvað út fyrir landsteinana undanfarin ár hafa væntanlega tekið eftir því að víðast hvar erlendis er innheimt slíkt gjald. Sums staðar er því skipt á milli sveitarfélaga, sýslna og jafnvel fylkja og skipt upp í marga þætti. Það eru þarna mjög skemmtileg tækifæri fyrir sveitarfélögin. Þau sveitarfélög sem verða fyrir mestri umsýslu vegna komu ferðamanna munu væntanlega njóta þessa gjalds og ég treysti sveitarfélögunum í samráði við ríkið mjög vel til að setja reglur þar um.

Ég ítreka aftur nokkur atriði í sambandi við heilbrigðismálin. Það er gríðarlega mikið fagnaðarefni að nýbygging Landspítalans skuli vera fullfjármögnuð í þessari fjármálaáætlun. Þetta er verkefni sem í rauninni þolir enga bið og þarf að klára. Það að ætla einnig að setja stóraukinn kraft í uppbyggingu hjúkrunarheimila mun létta á rekstri Landspítalans til lengri tíma litið og skipta sköpum fyrir heilbrigðiskerfið.

Ég fagna þessari fjármálaáætlun og þeim anda sem hún flytur inn í íslenskt samfélag í öllum grundvallaratriðum. Verið er að stíga stór skref fram á við og efna þau loforð sem þeir flokkar sem standa að ríkisstjórninni komu fram með í kosningabaráttunni. Það verður spennandi að fylgjast með á næstu árum hvernig til tekst við að klára þau verkefni sem hér eru fjármögnuð og ákveðið að leggja áherslu á.