148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég álít að það sé til marks um gæði þessarar ríkisfjármálaáætlunar að hún er gagnrýnd úr margvíslegum mismunandi áttum. Sumir talsmenn hv. stjórnarandstöðu koma hér og gagnrýna að hún sé óvarfærin og feli í sér of mikil fyrirheit um útgjöld meðan aðrir segja að allt of skammt sé gengið í þeim efnum. Ég held að ríkisfjármálaáætlunin endurspegli ákveðið jafnvægi í þeim efnum, jafnvægi milli ábyrgrar ríkisfjármálastefnu, ábyrgrar stefnu þar sem ekki er verið að eyða um efni fram, og hins vegar ákveðins sóknarhugs, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan, þar sem vilji er til þess að bæta úr á mörgum sviðum opinberrar þjónustu, innviðauppbyggingar og framkvæmda. Ég styð þessa áætlun og við þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerum það í sannfæringu um að hún sé ábyrg, framkvæmanleg (Forseti hringir.) og skynsamleg miðað við þær aðstæður sem við búum við.