148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

mannvirki.

185. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum. Það varðar stjórnsýslu mannvirkjagerðar.

Ég ætla ekki að telja upp gesti eða umsagnaraðila, þær upplýsingar liggja fyrir í gögnum málsins. En með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á mannvirkjalögum sem hafa það að markmiði að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu við mannvirkjagerð. Nefndin telur mikilvægt að leitað sé leiða til að einfalda stjórnsýslu og eftirlit með framkvæmdum, þó án þess að vikið sé frá gæðakröfum. Því telur nefndin frumvarpið að mörgu leyti til bóta.

Fyrst varðandi faggildingu. Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á a-lið 1. málsliðar 2. töluliðar ákvæðis til bráðabirgða, þ.e. að krafa ákvæðisins um faggildingu vegna áfangaúttekta verði felld niður. Engar breytingar eru gerðar á tímamarki ákvæðisins og hafa Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúar því að óbreyttu frest til 1. janúar 2019 til að afla sér faggildingar til að yfirfara séruppdrætti og framkvæma öryggis- og lokaúttektir. Þá er í b-lið 1. málsliðar 2. töluliðar ákvæðisins kveðið á um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúar hafi frest til 1. janúar 2020 til að afla sér faggildingar til að yfirfara aðaluppdrætti.

Allir umsagnaraðilar gerðu miklar athugasemdir við kröfu laganna um faggildingu og áhrif gildistöku hennar um næstu áramót, m.a. að krafan myndi hafa veruleg áhrif á fjárhag og stjórnsýslu embætta byggingarfulltrúa. Viðbúið sé að fá ef einhver embætti muni sækja um faggildingu sem muni að líkindum leiða til fákeppnismarkaðar fyrir faggilt byggingareftirlit. Vandséð sé að krafa um faggildingu muni ekki leiða til aukins kostnaðar fyrir húsbyggjendur, hvort sem úttektir verði á hendi faggiltra byggingarfulltrúa eða faggiltra skoðunarstofa. Bent var á að í nágrannalöndum okkar er ekki gerð krafa um að eftirlitsaðilar í byggingariðnaði hafi faggildingu. Þar sem gerð sé krafa um óháða úttekt snúist hún um að úttektin sé gerð af óháðum aðila en ekki að sá aðili hafi faggildingu. Nefndin leggur áherslu á að eftirlit með framkvæmdum sé með þeim hætti að það sé vandað, skilvirkt og tefji ekki framkvæmdir. Þá beri að gæta þess að kostnaður vegna eftirlits sé hóflegur.

Fyrir nefndinni kom ítrekað fram að krafa laganna um faggildingu myndi óhjákvæmilega leiða til gríðarlegs kostnaðarauka sem muni að endingu lenda á húsbyggjendum, hækka byggingarkostnað og þar með húsnæðisverð. Byggingarkostnaður er nú þegar hár hér á landi og verða allar reglur sem leitt geta til aukins kostnaðar að vera rökstuddar með fullnægjandi hætti. Að mati nefndarinnar hafa engin rök komið fram fyrir því að nauðsynlegt sé að ganga lengra hvað varðar byggingareftirlit hér á landi, þ.e. að krefjast faggildingar, en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og hvað þá að faggilding taki til alls opinbers byggingareftirlits. Þá fær nefndin ekki séð að tilhögun þessi sé í samræmi við sjónarmið um einföldun regluverks og lækkun byggingarkostnaðar.

Nefndin telur brýnt að fram fari heildarendurskoðun á ákvæðum laga um faggildingu og beinir því til umhverfis- og auðlindaráðuneytis að meta hvort önnur leið sé raunhæfari miðað við þær athugasemdir sem fram hafa komið. Þar verði meðal annars litið til þess hvort markmiðinu sem lá að baki lögfestingu faggildingarkröfunnar, með mannvirkjalögum árið 2010, um ákveðinn ramma utan um eftirlit og að opinberir eftirlitsaðilar og skoðunarstofur sitji við sama borð og lúti sömu reglum við framkvæmd eftirlits, verði til dæmis náð með kröfu um úttekt óháðs þriðja aðila án faggildingar og/eða þeirri leið sem Norðmenn hafa valið að nýta sem er ákvæði í Eurocode 0, viðauka B, sem er (sjá ÍST EN 1990:2002), um flokkun mannvirkja í þrennt eftir skilgreindri áhættu til að skilgreina þrjú stig af rýni hönnunar og eftirliti með framkvæmdum. Nefndin telur að sú leið að kveða á um stigskipta matskröfu sem taki til dæmis mið af stærð byggingar og vandastigi sé fýsilegur kostur sem nái fram markmiðum sem faggildingu var ætlað og tryggi skilvirkt eftirlit án hækkunar byggingarkostnaðar.

Nefndin leggur því til að frestur a-liðar 1. málsliðar 2. töluliðar ákvæðis til bráðabirgða í lögum um mannvirki verði framlengdur um tvö ár og frestur b-liðar sama ákvæðis verði framlengdur um eitt ár. Með því er sama tímamark lögfest í báðum ákvæðum og gefst ráðuneytinu þar með svigrúm til að endurskoða öll atriði laganna sem varða faggildingu og leggja fram heildstæðar tillögur að breytingum sem taka tillit til framangreindra sjónarmiða og athugasemda hagsmunaaðila.

Hvað séruppdrætti varðar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að fella niður kröfu um að allir séruppdrættir þurfi að liggja fyrir áður en byggingarleyfi er gefið út. Nefndin tekur undir þau sjónarmið. Nefndin áréttar að þrátt fyrir breytinguna er enn gerð sú krafa að ljúka þurfi allri hönnun áður en framkvæmt er, þ.e. að ekki má hefja framkvæmdir við verkþátt fyrr en séruppdrættir sem að honum snúa hafa verið lagðir fyrir leyfisveitanda og þeir áritaðir um samþykki. Leiðir breytingin til þess að framkvæmdaraðilar geta hafið framkvæmdir, t.d. grafið fyrir grunni byggingar, án þess að séruppdrættir vegna hönnunar glugga liggi fyrir. Telur nefndin breytinguna til mikilla bóta enda er hún til þess fallin að auka sveigjanleika og koma í veg fyrir óþarfatafir við upphaf framkvæmda, auk þess sem hún getur leitt til lækkunar byggingarkostnaðar.

Með hliðsjón af framangreindu er nauðsynlegt að skilgreiningu laganna á byggingarleyfi sé breytt og leggur nefndin til orðalagsbreytingu í þá veru.

Næst kem ég að því sem snýr að ábyrgðaryfirlýsingum. Gerðar voru athugasemdir við tillögu frumvarpsins um að krefjast ábyrgðaryfirlýsinga frá færri iðnmeisturum en nú er. Nefndin tekur ekki undir þau sjónarmið að halda þessum reglum óbreyttum. Nefndin telur breytinguna góða og til þess fallna að einfalda verkferla og draga úr kostnaði framkvæmdaraðila í upphafi verks. Þá er jákvætt að reynt sé að stemma stigu við því að iðnmeistarar séu skráðir ábyrgir fyrir verki til málamynda, enda leiðir það til óþarfs kostnaðar og tvíverknaðar í stjórnsýslu. Varðandi niðurfellingu á skráningarskyldu tiltekinna iðnmeistara, þ.e. blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara, á verk af tiltekinni stærðargráðu sem ætlað er til eigin nota eiganda bendir nefndin á að um óverulega verkþætti er að ræða með hliðsjón af viðkomandi mannvirkjum. Þá eru mannvirki sem eru 40 fermetrar eða minni ekki byggingarleyfisskyld en þar undir fellur meiri hluti bílskúra, viðbygginga og minni frístundahúsa. Enn verður heimilt að skrá alla iðnmeistara á verk, m.a. blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara, en afnám skráningarskyldunnar mun leiða til einföldunar stjórnsýslu og lækkunar byggingarkostnaðar.

Hvað áfangaúttektir varðar er með frumvarpinu lögð til sú breyting að byggingarstjóri, í stað byggingarfulltrúa, annist áfangaúttektir í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og skoðunarlista. Athugasemdir voru gerðar fyrir nefndinni við undanþáguheimild þess ákvæðis en mælt er fyrir um að útgefandi byggingarleyfis geti þrátt fyrir framangreint ákveðið að eftirlitsaðili, þ.e. byggingarfulltrúi, Mannvirkjastofnun eða eftir atvikum skoðunarstofa, annist áfangaúttektir. Bent var á að undanþágan er víðtæk og gefur orðalagið ekki tilefni til að ætla að mat á þörf eða nauðsyn þess að eftirlitsaðili annist úttektir fari fram. Þá sé hætta á að túlkun þess verði ólík milli sveitarfélaga og eftir atvikum hætta á að henni yrði beitt í ríkari mæli en gert hefði verið ráð fyrir. Á fundi nefndarinnar kom fram að þær upplýsingar hefðu fengist á fundi umsagnaraðila með fulltrúa ráðuneytisins að tilgangur ákvæðisins væri að sveitarfélög gætu ákveðið að sjá um umræddar áfangaúttektir verkþátta, t.d. ef í ljós kæmi að byggingarstjóri hefði ekki staðið sig fyrr í ferlinu. Nefndin telur mikilvægt að slík undanþáguheimild sé til staðar en tekur undir framangreind sjónarmið um að nauðsyn sé að afmarka heimildina nánar og leggur til orðalagsbreytingu í því skyni.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu. Sem fyrr greindi leggur nefndin til að orðalagsbreytingin er snýr að mati sem ég kom inn á í lokin verði þannig að á eftir orðunum „þrátt fyrir ákvæði 2. mgr.“ í 2. efnismgr. b-liðar 15. gr. komi: ef þörf þykir á og vegna vanrækslu byggingarstjóra. Þarna telur nefndin hafa verið gerða nægjanlega grein fyrir því að fram þurfi að fara raunverulegt mat og rökstuðningur fyrir því ef þessari undanþáguheimild er beitt.

Önnur breyting sem lögð er til er að í stað orðanna „1. janúar 2019“ í 17. gr. a komi: 1. janúar 2021 og í b-lið: Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „1. janúar 2020“ í b-lið 2. töluliðar ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. janúar 2021.

Þetta er það sem ég kom inn á í ræðunni áðan varðandi samræmingu tímasetningar á frestun faggildingar.

Ari Trausti Guðmundsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Ari Trausti Guðmundsson telur að kröfur um faggildingu eftirlitsaðila í byggingariðnaði séu skynsamlegar til að tryggja gæði mannvirkja við íslenskar aðstæður. Rósa Björk Brynjólfsdóttir telur mikilvægt að ekki verði slakað á kröfum um faggildingu eftirlitsaðila í byggingariðnaði svo gæði íslenskra mannvirkja verði tryggð.

Eins og fram kom áðan leggur nefndin til að ráðuneytið taki þessi atriði til efnislegrar skoðunar.

Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason og Rósa Björk Brynjólfsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Og undir þetta skrifa sá sem hér stendur, Bergþór Ólason, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, með fyrirvara, Karl Gauti Hjaltason, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, með fyrirvara, og Vilhjálmur Árnason, Líneik Anna Sævarsdóttir og Helga Vala Helgadóttir.